Afkoma Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var talsvert verri en greinendur gerðu ráð fyrir. Sérfræðingar hagfræðideildar Landsbankans segja tilfinninguna þá að árið 2019 verði eins erfitt fyrir félagið og árið 2018.

EBITDA ferðaþjónustufélagsins - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - var neikvæð um 35 milljónir dala, jafnvirði um 4,2 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og reyndist undir væntingum greinenda.

Þannig gerði hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir að EBITDA tímabilsins yrði neikvæð um 22,8 milljónir dala, IFS spáði neikvæðri EBITDA upp á 25,1 milljón dala og greiningardeild Arion banka gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 23,6 milljónir dala, samkvæmt samantekt Fréttablaðsins.

Heildartekjur félagsins á ársfjórðungnum reyndust töluvert lægri en áðurnefndir greinendur höfðu spáð en hins vegar var rekstrarkostnaður félagsins á tímabilinu lægri en búist hafði verið við.

EBITDA Icelandair Group fyrir árið í heild endaði í 76,5 milljónum dala en í viðbrögðum IFS við árshlutauppgjöri félagsins er bent á að síðasta afkomuspá stjórnenda félagsins hafi gert ráð fyrir að EBITDA ársins yrði á bilinu 80 til 90 milljónir dala. Þess má geta að EBITDA félagsins nam ríflega 170 milljónum dala árið 2017.

Hagfræðideild Landsbankans bendir í sínum viðbrögðum á að verulega hafi komið á óvart að tekjur félagsins af ferðaþjónustu hafi dregist saman um 27,7 prósent á milli fjórðunga. Til samanburðar hafi umræddar tekjur lækkað um 6,2 prósent á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og 0,4 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins.

Sérfræðingar hagfræðideildarinnar segja jafnframt ljóst að fyrstu mánuðir þessa árs verði félaginu þungir. Tilfinningin sé sú að árið 2019 verði jafn erfitt og síðasta ár. Möguleikar á bættri afkomu séu þó fyrir hendi og minni grimmd í vexti keppinauta, og verðlagningu þeirra, geti komið félaginu til góða á seinni hluta ársins.

Frétt Fréttablaðsins: Icelandair tapaði 6,7 milljörðum króna í fyrra - áfram óvissa