Afkoma ríkissjóðs og sveitarfélaga var neikvæð um 215 milljarða á síðasta ári, að því er kemur fram í bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er um að ræða verstu afkomu hins opinbera frá árinu 2009. Hallinn á rekstri hins opinbera svarar til 7,3 prósentum af áætlaðri vergri landsframleiðslu síðasta árs.

Tekjur hins opinbera drógust saman um 2,3 prósent á meðan útgjöld jukust um meira en 10 prósent.

„Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins hafa haft umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera en útgjöld vegna hlutabótaleiðar og greiðslu launa á uppsagnarfresti námu samtals um 35 milljörðum króna á árinu 2020,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs meira en tvöfölduðust úr 23 milljörðum árið 2019 í 54 milljarða á síðasta ári.

Tekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru 42,4 prósent, en til samanburðar var sama hlutfall 41,9 prósent á árinu 2019. Að sögn Hagstofunnar má rekja tekjusamdrátt hins opinbera til samdráttar í tekjum ríkissjóðs, en tekjur sveitarfélaga hafa haldist í horfinu.

Á verðlagi hvers árs drógust tekjur ríkissjóðs saman um 30 milljarða, á meðan tekjur sveitarfélaga jukust um tæpa 20 milljarða

Útgjöld ríkissjóðs jukust meira en útgjöld sveitarfélaga. „Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs hafi aukist um 12,8 prósent og útgjöld sveitarfélaga um 4,9 prósent en útgjöld almannatrygginga jukust töluvert meira eða um 25,6 prósent frá fyrra ári,“ segir hjá Hagstofunni.

Fjárfesting hins opinbera stóð nokkurn veginn í stað milli ára sem hlutfall af landsframleiðslu. Fjárfesting ríkissjóðs jókst lítillega en fjárfesting sveitarfélaga dróst saman um 10 milljarða. Niðurstaðan er sú að fjárfesting hins opinbera dróst saman um 6 milljarða.

Þrátt fyrir auknar skuldir hins opinbera eru vaxtagjöld þess sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lægri nú en fyrir fimm árum síðan. Á árinu 2020 voru vaxtagjöld 4,4 prósent af landsframleiðslu samanborið við 6,9 prósent fimm árum áður. Má rekja það til lækkandi stýrivaxta Seðlabanka Íslands og almennt lækkandi vaxtastigs í heiminum.