Neikvæð áhrif kórónafaraldursins á rekstur starfsemi Capacent á Íslandi flýtti ákvörðun sænska móðurfélagsins um að leggja starfsemina hérlendis niður. Íslenska ráðgjafarstofan hafði ekki verið nægilega arðbær áður en faraldurinn skall á heimsbyggðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu Capacent Holding AB í Svíþjóð vegna gjaldþrots íslenska dótturfélagsins. Capacent á Íslandi, sem óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í síðustu viku, tapaði einni milljón sænskra króna, jafnvirði tæplega 15 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Tap fyrirtækisins nam 0,3 milljónum sænskra, jafnvirði um 4 milljóna íslenskra króna, á fyrsta fjórðunga þessa árs.

Capacent á Íslandi var hluti af Capacent Holding AB í Svíþjóð sem var upphaflega stofnað árið 1983 og hefur verið skráð á Nasdaq First North markaðnum í Stokkhólmi frá árinu 2015. Félagið er með skrifstofur í Svíþjóð og í Finnlandi, og hjá því starfa um hundrað sérfræðingar, nú þegar starfsemin á Íslandi hefur verið lögð niður. Starfsmenn Capacent á Íslandi voru 44 talsins.

„Arðsemi Capacent á árinu 2018 og 2019 hefur verið undir markmiðum. Við erum nú að stíga skref til að aðlaga kostnaðargrunninn og hrinda í framkvæmd fjölda skipulagsbreytinga sem munu leiða okkur aftur til arðbærs vaxtar. Slit á íslenska félaginu er hluti af þessu,“ er haft eftir Edvard Björkenheim, framkvæmdastjóra Capacent samstæðunnar, í tilkynningunni.

Capacent Holding mun þurfa að færa niður 100 prósenta eignarhlut sinn í íslenska félaginu um 11,7 milljónir sænskra, jafnvirði um 170 milljóna ísenskra króna.