Þrátt fyrir töluverða fækkun ferðamanna á síðasta ári var afkoma Isavia samstæðunnar jákvæð um 1,2 milljarða króna eftir skatta. Er það lækkun um 3,1 milljarð króna frá fyrra ári. Ef tekið er tillit til niðurfærslu á viðskiptakröfum vegna falls WOW air nemur lækkunin milli ára um 1,2 milljarði króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Tekjur ársins lækkuðu um 3,3 milljarða króna sem er um átta prósenta samdráttur á milli ára. Handbært fé nam um 9,2 milljörðum króna í lok ársins.

Í tilkynningunni segir að farþegum um Keflavíkurflugvöll hafi fækkað um 26 prósent á milli ára en flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fækkað um 7,5 prósent. Þá fækkaði innanlandsfarþegum um 11,4 prósent.

„Árið 2019 var fyrir margar sakir viðburðaríkt. WOW air féll á fyrri hluta ársins og stuttu síðar voru Boeing 737 MAX vélar Icelandair kyrrsettar. Allt hafði þetta mikil áhrif á fjölda farþega og þannig á rekstur samstæðu Isavia,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningunni.

„Nú stöndum við frammi fyrir heimsfaraldri af völdum Covid-19-veikinnar, og það er gríðarmikil óvissa með framhaldið. Það eina sem við vitum er að áhrifin verða mikil. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk en það er ljóst að við, eins og önnur fyrirtæki, þurfum að bretta upp ermarnar til að komast heil í gegnum þessa erfiðleika,“ nefnir Sveinbjörn.