Sjóvá-Almennar tryggingar hagnaðist um 392 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi síðasta rekstrarárs samanborið við 416 milljónir á sama fjórðungi árið á undan. Forstjórinn segir afkomu af fjárfestingarstarfsemi undir væntingum.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 480 milljónum króna. Það er hækkun úr 274 milljónum á sama fjórðungi 2017. Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam 6 milljónum króna og lækkaði úr 310 milljónum á milli ára. Ávöxtun eignasafns lækkaði úr 1,7 prósentum niður í 1 prósent og samsett hlutfall nam 96,5 prósentum samanborið við 99,6 prósent á fjórða ársfjórðungi 2017. 

Sá litið á rekstrarárið í heild sinni nam hagnaðurinn 652 milljónum króna. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 1,6 milljarði króna en tap af fjárfestingarstarfsemi nam 679 milljónum króna.

Stjórn leggur til að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2018 sem nemur 0,47 kr. á hlut.

„Þrátt fyrir að liðið ár hafi verið tjónaþungt hefur heilbrigður iðgjaldavöxtur gert það að verkum að afkoma af vátryggingarekstri var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samsett hlutfall fyrir 4F 2018 nam 96,5% sem er rúmum 3 prósentustigum lægra en á 4F 2017. Samsett hlutfall ársins 2018 nam 97,4% og lækkar um 2 prósentustig á milli ára. Afkoma af vátryggingastarfsemi eykst þannig um 40% á milli ára við krefjandi aðstæður," er haft eftir Hermanni Björnssyni forstjóra.

„Afkoma af fjárfestingarstarfsemi dregur niður heildarafkomu ársins 2018 og var töluvert undir væntingum á árinu. Það skýrist fyrst og fremst af tapi á skráðum og óskráðum hlutabréfum en skuldabréf skiluðu einnig lægri ávöxtun en vænst var. Fjárfestingatekjur ársins voru 299 m.kr. sem samsvarar 0,9% ávöxtun. Með áframhaldandi kröftugum iðgjaldavexti stefnum við á að ná langtímamarkmiði í samsettu hlutfalli á árinu 2019 eða um 95% og að afkoma fyrir skatta verði um 3.300 m.kr.“