Nýr afgreiðslutími Kringlunnar tekur gildi á morgun, þann 15. september. Með breytingunum er verið að stytta afgreiðslutíma um fjóra tíma á viku.

Verslunarmiðstöðin verður nú opin alla virka daga frá klukkan 10 til 18:30, frá klukkan 11 til 18 á laugardögum og frá klukkan 12 til 17 á sunnudögum.

Kringlan var með sérstaka sumaropnun í ljósi aðstæðna en nú er verið að hverfa til fyrra horfs, þó með styttri afgreiðslutíma.

Hætta með opnun á fimmtudagskvöldum

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar segir að breyttur opnunartími sé liður í hagræðingu.

„Launakostnaður hefur orðið mjög íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Það hefur verið mikil hækkun á launum síðustu ár og þetta er liður í því að leita leiða til að hagræða. Við erum að draga úr afgreiðslutímum um fjórar stundir sem eru allt yfirvinnustundir."

Afgreiðlslutímar ekki í höndum rekstraraðila

Sigurjón segir að skiptar skoðanir séu um opnunartíma meðal rekstraraðila.

„Þetta skiptist í tvö horn. Sumir vilja hafa opið lengur en aðrir skemur. Endanleg ákvörðun liggur hjá stjórnendum Kringlunnar en við leituðum eftir afstöðu rekstraraðila í þrígang í vor þegar við vorum með afgreiðslutíma til skoðunar. Við tókum ákvörðun á grunni þeirra gagna," segir Sigurjón.

Nóg að gera í sumar

Sigurjón segir að verslun hafi verið mjög fín í sumar. Hertar sóttvarnarreglur sem tóku gildi í ágúst hafi þó haft áhrif á hegðun fólks. Þetta hafi jafnast út núna og verslun er að komast í sama horf aftur.

„Við erum búin að vera í mjög sérstökum aðstæðum. Það var frjáls opnun í apríl og maí. Eftir það tók við ákveðinn lágmarksopnunartími en núna erum við að festa afgreiðslutíma Kringlunnar til framtíðar."