Samkvæmt nýrri markaðsskýrslu eru íbúar í Kanada farnir að draga verulega úr kaupum sínum á áfengi. Skýrslan, sem unnin er af Statistic Canada, segir að frá 2021 til 2022 hafi bjórsala dregist mjög mikið saman og eins hafi sala á léttvíni ekki verið jafn lítil síðan 1949.
Almenn sala á bjór í Kanada hefur dregist saman um 8,8 prósent undanfarin tíu ár en drykkurinn er engu að síður vinsælastur allra áfengra drykkja í landinu. Bjór er ríkur þáttur í kanadískri menningu og samkvæmt rithöfundinum Stephen Beaumont skilgreinir bjór, ásamt beikoni, vetri og ísknattleik, kanadísku þjóðina.
Áfengissala hefur engu að síður verið á niðurleið undanfarin ár og var samdrátturinn um 1,2 prósent á síðasta ári.
Margir Kanadamenn kenna hertum drykkjureglum og hærri sköttum um söluþróunina í landinu. Dagblaðið Toronto Star greindi meðal annars frá því að frá og með 1. apríl myndu áfengisskattar í Kanada hækka um 6,3 prósent.
Kanadíska heilbrigðisráðuneytið hefur einnig uppfært leiðbeiningar sínar um hóflega drykkju og mæla nýjustu leiðbeiningar með að fólk sleppi því hreinlega að drekka áfengi. Fyrir þá sem telja sig verða að drekka áfengi er ekki mælt með að fá sér meira en tvö glös á viku, sem er mun minna magn en þau 9,5 glös sem hver Kanadabúi drekkur að jafnaði í hverri viku.
Statistics Canada bendir hins vegar á að erfitt sé að leggja að jöfnu tölfræði um áfengissölu við raunverulega neyslu. Stofnunin tekur aðeins til greina söluna sem á sér stað í ríkis- og einkareknum verslunum en ekki magnið sem bruggað er í heimahúsum.