Sam­kvæmt nýrri markaðs­skýrslu eru í­búar í Kanada farnir að draga veru­lega úr kaupum sínum á á­fengi. Skýrslan, sem unnin er af Statistic Canada, segir að frá 2021 til 2022 hafi bjór­sala dregist mjög mikið saman og eins hafi sala á létt­víni ekki verið jafn lítil síðan 1949.

Al­menn sala á bjór í Kanada hefur dregist saman um 8,8 prósent undan­farin tíu ár en drykkurinn er engu að síður vin­sælastur allra á­fengra drykkja í landinu. Bjór er ríkur þáttur í kanadískri menningu og sam­kvæmt rit­höfundinum Stephen Beaumont skil­greinir bjór, á­samt beikoni, vetri og ís­knatt­leik, kanadísku þjóðina.

Á­fengis­sala hefur engu að síður verið á niður­leið undan­farin ár og var sam­drátturinn um 1,2 prósent á síðasta ári.

Margir Kanada­menn kenna hertum drykkju­reglum og hærri sköttum um sölu­þróunina í landinu. Dag­blaðið Tor­onto Star greindi meðal annars frá því að frá og með 1. apríl myndu á­fengis­skattar í Kanada hækka um 6,3 prósent.

Kanadíska heil­brigðis­ráðu­neytið hefur einnig upp­fært leið­beiningar sínar um hóf­lega drykkju og mæla nýjustu leið­beiningar með að fólk sleppi því hrein­lega að drekka á­fengi. Fyrir þá sem telja sig verða að drekka á­fengi er ekki mælt með að fá sér meira en tvö glös á viku, sem er mun minna magn en þau 9,5 glös sem hver Kana­da­búi drekkur að jafnaði í hverri viku.

Statistics Canada bendir hins vegar á að erfitt sé að leggja að jöfnu töl­fræði um á­fengis­sölu við raun­veru­lega neyslu. Stofnunin tekur að­eins til greina söluna sem á sér stað í ríkis- og einka­reknum verslunum en ekki magnið sem bruggað er í heima­húsum.