Um áramótin tók gildi 7,8 prósenta hækkun á áfengisgjaldi. Að sama skapi var dregið úr afslætti í tollfrjálsum verslunum sem leiddi til 15 prósenta hækkunar á áfengi í fríhöfninni. Veitingamenn og framleiðendur segja hækkunina í ár koma til með að hafa íþyngjandi áhrif nema stjórnvöld grípi inn í.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður sagt að skattar á áfengi væru komnir að ystu mörkum. Það var hans skoðun að Íslendingar ættu að vera með sambærilegt verð og önnur lönd og að taka þyrfti áfengisgjöldin til endurskoðunar eða breyta áfengisgjöldum fyrir veitingahús.
„Við þurfum líka að styrkja veitingahúsin, þau eiga að auka fjölbreytnina og bæta menninguna. Við höfum öll notið góðs af því að fá fleiri ferðamenn og þetta gerir lífið einfaldlega skemmtilegra að sjá veitingastaði og matsölustaði þrífast. Ef við erum með of há áfengisgjöld þá er minna svigrúm eftir til rekstrarins,“ sagði Bjarni.
Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður segist leiður yfir því að horfa fram á tímabil mikilla verðhækkana á nýju ári. Hann undrast að aukin áfengisgjöld virðist vera eina úrlausnin til að auka tekjuflæði ríkissjóðs.
„Okkar álagning á áfengi er nánast eingöngu skatttengd. Ef við kaupum vínflösku á tvö þúsund krónur þá er skatturinn í kringum 70 prósent. Það mun núna taka við tímabil hækkana sem er mjög leiðinlegt af því við vitum að við erum að selja dýra vöru,“ segir Ólafur.
Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa, segir að það þurfi einnig að huga að framleiðendum. Hún vill að íslenska ríkið beiti sér fyrir þeirri heimild innan EES-samningsins að veita smáframleiðendum allt að 50 prósenta afslátt af áfengisgjöldum. Hún segir að það muni skipta sköpum fyrir lítil fyrirtæki, mörg hver sem keppa við stærri aðila sem eru í mun betri stöðu hvað auglýsingar varðar.
„Það að fá helmingsafslátt af áfengisgjöldum myndi auðvelda lífið mikið fyrir smáframleiðendur en Ísland er eina landið innan EES sem ekki hefur tekið þessa reglugerð upp til að aðstoða litla framleiðendur.“
„Þér finnst bara alltaf eins og það sé verið að vinna gegn þér í staðinn fyrir með þér.“
Hún bætir við að margir handverksbruggarar á Íslandi séu oftar en ekki að sinna annarri vinnu samhliða framleiðslu. „Þetta er hugsjónastarf, þetta er frumkvöðlastarf og þeir eru búnir að vera haldnir mikilli fórnfýsi að vera að standa í þessu við ómögulegar aðstæður. Þér finnst bara alltaf eins og það sé verið að vinna gegn þér í staðinn fyrir með þér.“
Áfengisgjöld eru skilgreind í hagfræðinni sem syndagjöld sökum þeirra áhrifa sem varan hefur á einstaklinginn sem neytir hennar og aðra. Hún er sammála að áður fyrr hafi ríkt óhófsdrykkja, en bendir á að það byrjaði ekki með bjórnum. „Í dag erum við að komast á þann stað að við viljum styðja við íslenska bjórframleiðslu og lítum á þetta sem menningu sem þarf að heimsækja,“ segir Laufey.