Seðlabanki Íslands sendi afdráttarlaus skilaboð í morgun um að brugðist yrði við efnahagslegum áhrifum kórónafaraldursins með öllum tiltækum ráðum. Þetta segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta eru jákvæð skref, ég held að það sé ekki hægt að segja annað. Bæði skrefin sjálf og einnig að Seðlabankinn er búinn að taka allan vafa um að hann sé á tánum að bregðast við þessari stöðu sem nú er komin upp. Áður ákveðnar dagsetningar um vaxtaákvörðunardaga eru til dæmis engin fyrirstaða fyrir aðgerðum þessa dagana,“ segir Jón Bjarki.

Fram kom í tilkynningu Seðlabankans í morgun að peningastefnunefnd bankans hefði ákveðið að lækka stýrivexti um hálft prósentustig, þannig að þeir færu niður í 1,75 prósent. Auk þess hefði fjármálastöðugleikanefnd bankans tekið ákvörðun um að aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á bankana.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi í morgun að bankinn væri „rétt að byrja“ og væri að horfa til úrræða sem erlendir seðlabankar hafa beitt. Í kjölfar sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins byggi sameinuð stofnun yfir „ótal tækjum“.

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Eins og kom fram á kynningarfundinum,“ segir Jón Bjarki „þá er bankinn tilbúinn að gera það sem þarf og beita alls kyns tólum og tækjum sem hann hefur ekki beitt áður. Ég held að þetta hafi verið traustvekjandi ákvörðun og að fundurinn hafi hjálpað til að efla traust á að stjórnvöld peningamála ætli sér að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að minnka skaðann sem þessi faraldur, og það sem honum fylgir, er að valda í hagkerfinu.“

Gengi krónunnar hefur veikst um tíu prósent frá áramótum en seðlabankastjóri sagði á fundinum að veikingin væri að einhverju leyti mjög holl. Í opnu hagkerfi ætti gengið að veikjast þegar útflutningstekjur minnkuðu.

Jón Bjarki tekur undir orð seðlabankastjóra og segir að gengisveikingin sé í takt við það sem sést í smærri hagkerfum þegar mikið gengur á. Hún sé af svipaðri stærðargráðu og gengisveikingin sem varð á seinni hluta árs 2018 sem veitti ferðaþjónustunni meiri viðspyrnu.

„Ef gengið staðnæmist á þessum slóðum þá er Ísland orðið mun hagstæðara heim að sækja en fyrir tveimur árum síðan og það á eftir að hjálpa okkur þegar ferðaþjónustan tekur við sér á ný,“ segir Jón Bjarki.

Fram kom í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar að aflétting kröfu um sveiflujöfnunarauka mun auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljarða króna eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni.

Nefndin ætlast til þess að það svigrúm sem lækkun sveiflujöfnunaraukans skapar verði notað til að styðja við heimili og fyrirtæki. Fylgst verður vel með viðbrögðum bankakerfisins, stöðu heimila og fyrirtækja, og þeim fjármálalegu skilyrðum sem þeim eru búin á næstu misserum.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Mynd/Haraldur Guðjónsson

„Það fylgdi yfirlýsingunni og var jafnframt ítrekað á kynningarfundinum að stjórnvöld ætluðust til þess að bankakerfið miðlaði þessu aukna svigrúmi áfram tli fyrirtækja og heimila í landinu. Fjármálafyrirtæki hafa lýst yfir vilja til þess og hafa sem betur fer mun meiri burði heldur en í síðustu kreppu til að vera hluti af lausninni,“ segir Jón Bjarki, spurður hvort hann búist við því hvernig aðgerðir Seðlabankans muni skila sér í hagkerfið.

„Þetta eru stórar fjárhæðir og það munar verulega um aukið svigrúm í fjármálakerfinu til að létta fyrirtækjum og almenningi lífið,“ bætir hann við.