„Ég fer á stjórnarfund hjá Alvogen árið 2012 og kynni hugmyndina um að koma þróun hliðstæðu líftæknilyfja á fót. Við gerðum ráð fyrir að það tæki tíu ár að koma fyrsta lyfinu á markað og að fjárfestingin myndi nema meira en 100 milljörðum króna. Það hefur nokkurn veginn gengið eftir,“ segir Róbert Wessman, stofnandi Alvotech, sem færist nær því að koma líftæknihliðstæðum sínum á markað.
Eins og Markaðurinn greindi frá í mars hafa stjórnendur Alvotech unnið að því að styrkja fjármögnun fyrirtækisins vegna áforma um skráningu á erlendan hlutabréfamarkað síðar á þessu ári. Til að mynda sótti Alvotech sér um 100 milljónir dala, jafnvirði um 12 milljarða króna, í nýtt hlutafé í vetur.
Aðspurður, segist Róbert lítið geta tjáð sig um mögulega skráningu Alvotech á hlutabréfamarkað. Eftir því sem Markaðurinn kemst næst hefur Alvotech horfið frá fyrri áformum um skráningu í kauphöll í Hong Kong og stefnir nú alfarið á skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum. Ákvörðunina má meðal annars rekja til uppgangs sérhæfðra yfirtökufélaga (e. SPAC) á bandaríska markaðinum, en mörg þeirra einblína á yfirtöku á líftæknifyrirtækjum.
Tveir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, fjárfestu í Alvotech fyrir rúmlega 600 milljónir króna í hlutafjárútboðinu í vetur, en aðrir íslenskir fjárfestar sem tóku þátt í útboðinu voru íslenskt tryggingafélag, fjárfestingafélagið Hvalur, sem Kristján Loftsson stýrir, og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Þetta var í fyrsta sinn sem innlendir fjárfestar, sem eru ekki hluti af stjórnendateymi lyfjafyrirtækisins, komu inn í hluthafahóp Alvotech.
Lögðuð þið áherslu á að fá inn íslenska fjárfesta?
„Nei, ekki beint. Við byrjuðum með fjárfestakynningar erlendis, það spurðist til Íslands og mikill áhugi myndaðist á félaginu. Þetta var smá togstreita því ef það verður af skráningu erlendis er mikilvægt að vera með erlenda stofnanafjárfesta. Að lokum seldum við lítinn hluta, innan við eitt prósent af félaginu, til innlendra fjárfesta.“
Ísland ekki sjálfsagður valkostur
Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknilyfja, þar á meðal hliðstæðu lyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heims. Líftæknilyf, sem eru framleidd með hjálp lífvera, eru flóknari í þróun og framleiðslu en hefðbundin lyf og kosta því umtalsvert meira. Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað, eða svokallaðar hliðstæður.
„Árið 2012 sáum við fram á að landslagið í lyfjageiranum myndi breytast töluvert vegna tilkomu líftæknilyfja. Á þessum tíma voru yfirvöld ekki búin að skilgreina umhverfið í kringum hliðstæður líftæknilyfja en við við reiknuðum með að það myndi breytast hratt,“ segir Róbert.
„Menn vissu ekki hvort hægt yrði að fá arðinn greiddan út úr landi ef vel tækist til.“
Hins vegar lá ekki beint við að byggja upp aðstöðu fyrir framleiðslu og þróun á Íslandi.
„Það var erfitt að taka þá ákvörðun því hagkerfið var í gjaldeyrishöftum,“ segir Róbert. „Menn vissu ekki hvort hægt yrði að fá arðinn greiddan út úr landi ef vel tækist til. Jafnframt var lítil þekking á Íslandi sem tengdist líftæknilyfjaþróun og -framleiðslu. Ég reiknaði því með að það yrði kostnaðarsamara að byggja upp starfsemina á Íslandi, þar sem sækja þyrfti þekkingu erlendis með tilheyrandi kostnaði. Við vorum að skoða nokkur lönd, til dæmis Möltu, þar sem stjórnvöld fjármagna uppbyggingu á aðstöðu fyrir framleiðslu og þróun lyfja, en á endanum ákváðum við að byggja reksturinn upp á Íslandi. Það var spennandi að byggja hreinlega upp nýja atvinnugrein í heimalandi sínu.“
Mikill hagnaður á Íslandi
Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hefðu gert með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm hliðstæða líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Samningurinn tryggir Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða króna á næstu árum og nú þegar hefur hann skilað íslenska líftæknifyrirtækinu um 9 milljörðum króna. Að sögn Róberts er um að ræða stærsta samning sem gerður hefur verið á sviði hliðstæðu-líftæknilyfja.
Tekjur Alvotech tvöfölduðust á milli ára og námu 64 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 7,7 milljarða króna, á árinu 2020. Á sama tíma jókst tap félagsins fyrir skatta um 52 prósent og nam 213,2 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 25,7 milljarða króna.
„Þetta eru að mestu leyti áfangagreiðslur sem velta á því hvernig lyfjaþróuninni vindur fram. Við búumst við að vera með 12 milljarða króna í tekjur á þessu ári og þær aukast síðan umtalsvert árið 2022. Með samningum um sölu- og dreifingu á helstu markaðssvæðum heims, eins og við Teva í Bandaríkjunum og Stada í Evrópu, höfum við tryggt allt að 130 milljarða króna tekjur á næstu árum fyrir aðgang að lyfjahugviti Alvotech og því til viðbótar eru fyrirtækin skuldbundin til að kaupa lyfin af okkur í framtíðinni.“
Alvotech hefur einnig gert samstarfssamninga um markaðssetningu hliðstæðulyfja í Evrópu, Suður-Ameríku, Kína, Miðausturlöndum og Suðaustur-Asíu. Markmiðið með þeim er að koma á samstarfi við leiðandi fyrirtæki í hverjum heimshluta. Sem dæmi nefnir Róbert samninginn við Yangtze River Pharmaceutical, sem er leiðandi lyfjafyrirtæki í Kína og kemur til með að markaðssetja þau lyf sem framleidd verða í verksmiðju í borginni Changchun.
Hvaða þýðingu hefur uppbygging Alvotech fyrir íslenska hagkerfið?
„Félagið mun skila umtalsverðum hagnaði á Íslandi. Þegar þú ert með alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki og starfsemi í mörgum löndum, þá myndast verðmætin og hagnaðurinn í landinu þar sem varan er framleidd. Við erum að byggja upp aðstöðu í Kína en hún verður aðallega notuð fyrir Kínamarkað. Á Íslandi erum við að þróa og framleiða fyrir Bandaríkin og Evrópu. Þar myndast hagnaðurinn fyrst og fremst,“ segir Róbert.

Áætlanir Alvotech gera ráð fyrir að útflutningstekjur af starfseminni geti numið um einum milljarði Bandaríkjadala, jafnvirði um 120 milljarða króna, árið 2027. Þá verða skatttekjur ríkissjóðs af starfsemi líftæknifyrirtækisins á bilinu 15 til 20 milljarðar króna. Að auki greiðir fyrirtækið meira en sex milljarða króna í launagreiðslur á ári, sem einnig skilar tekjum í ríkissjóð.
Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma og heildarfjárfesting félagsins í Alvotech var komin í um 100 milljarða króna í árslok 2020. Þá er systurfélagið Alvogen stór hluthafi, en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingasjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek, sem er fjárfestingasjóður í Singapúr. Aðrir hluthafar eru meðal annars alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.
Lyfið sem Alvotech bindur mestar vonir við er Humira, sem veltir um 20 milljörðum árlega á heimsvísu.
„Einkaleyfishafinn, Abbvie, þróaði nýja útgáfu af þessu sama lyfi og í dag hafa um 90 prósent af bandaríska markaðinum skipt yfir í nýju útgáfuna. Alls hafa níu fyrirtæki þróað líftæknihliðstæðu af Humira, en öll eru þau með gömlu útgáfuna, sem þýðir að þau skipta tíu prósentum markaðarins á milli sín. Við vorum fyrst til að skrá líftæknihliðstæðu af nýju útgáfunni hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu.“
Abbvie hefur nú stefnt Alvotech vegna meints stuldar á trúnaðarupplýsingum sem íslenska fyrirtækið á að hafa nýtt sér til að stytta sér leið í þróunarferlinu. Alvotech hafnar þessum ásökunum og segir stefnu Abbvie snúast um að hægja á innkomu keppinautar sem ætli að bjóða sjúklingum ódýrari valkost. Abbvie hefur verið sakað um að hafa beitt brögðum þegar kemur að því að koma í veg fyrir samkeppni í Bandaríkjunum, meðal annars með því að skrá yfir 100 einkaleyfi sem Alvotech hyggst fá ógilt.
„Sem betur fer er umhverfið í Bandaríkjunum nokkuð skýrt hvað þetta varðar. Þessar lögsóknir eru ferli sem tekur ákveðinn tíma. Við erum mjög sannfærð um að koma fyrst á markað með nýju útgáfuna og reiknum með að fá samþykki fyrir því fyrir árslok 2021,“ segir Róbert.
Mjög hár vaxtakostnaður í byrjun
Róbert er forstjóri alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen sem hann stofnaði árið 2009 í gegnum fjárfestingafélagið Aztiq Pharma.
„Hugmyndin var að nýta þá þekkingu á lyfjageiranum sem við höfðum aflað okkur í gegnum árin og byggja upp nýtt lyfjafyrirtæki. Árið 2009 keyptum við 21 lyf af litlu bandarísku lyfjafyrirtæki en við höfðum trú á að þau gætu orðið grunnur að sterku samheitalyfjafyrirtæki. Kaupverðið var um 3 milljónir dala og kaupin voru að mestu leyti fjármögnuð með seljendaláni,“ segir Róbert.
Samkomulag náðist við Norwich Pharmaceuticals, sem var bandarísk lyfjaverksmiðja í taprekstri. Lyfjaþróunin var seld til Norwich og á sama tíma keypti Aztiq Pharma 40 prósenta hlut í bandarísku verksmiðjunni.
„Við náðum að fjármagna kaupin með lánum frá bandarískum og evrópskum fjárfestum sem báru 25 prósenta vexti. Því til viðbótar vantaði fjármagn í reksturinn til að koma rekstri verksmiðjunnar réttum megin við núllið, klára lyfjaþróunina og fara inn á fleiri markaði. Hluthafar Norwich buðust til að lána félaginu á litlum 25 prósenta vöxtum,“ segir Róbert.
„Þetta var heimanmundurinn sem ég fékk. Allt var á gríðarlega háum vöxtum og ljóst að vel þyrfti að takast til. Félagið var fyrst um sinn verulega undirfjármagnað. Það var ekki fyrr en árið 2012, þegar við fórum í skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum, í samstarfi við Morgan Stanley, að við náðum vaxtakostnaðinum niður í 18 prósent. Síðan þá höfum við byggt upp félag sem var með 120 milljarða króna í veltu árið 2017 og hátt í 40 milljarða króna í EBITDA. Þá var búið að endurfjármagna félagið á eðlilegum vaxtakjörum,“ segir hann.
„Þetta gekk ævintýralega þrátt fyrir að umhverfið hafi ekki verið sérlega hagsætt,“ bætir Róbert við. „Á þessum tíma, þegar Alvogen var stofnað, réðu tíu fyrirtæki um 50 prósentum af allri veltunni í samheitalyfjageiranum. Það virtist ekki vera mikil þörf á enn einu lyfjafyrirtækinu. En okkur farnaðist vel að velja réttu lyfin og koma þeim fyrst á markað. Þegar það tekst ertu í stöðu til að selja inn í stærstu keðjur eins og CVS í Bandaríkjunum.“
Haustið 2019 náði Alvogen samkomulagi um sölu á starfsemi fyrirtækisins í Mið- og Austur-Evrópu til Zentiva Group. Söluverðið var 750 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 92 milljarða króna.
„Það var ótrúlegur árangur að selja starfsemi sem hafði verið byggð upp frá grunni, á þessu verði,“ segir Róbert.
Í byrjun árs var greint frá því að matsfyrirtækið Moody’s hefði breytt horfum Alvogen Pharma US, sem heldur utan um starfsemi Alvogen í Bandaríkjunum, úr „stöðugum“ í „neikvæðar“. Taldi Moody’s auknar líkur á því að Alvogen næði ekki að halda skuldum undir fimmfaldri EBITDA og á sama tíma ykist endurfjármögnunaráhætta.
„Árið 2016 sjáum við blikur á lofti í Bandaríkjunum,“ segir Róbert, spurður um starfsemina í Bandaríkjunum. „Samkeppnin var að aukast og við breyttum viðskiptalíkaninu þannig að fyrirtækið myndi hefja þróun á eigin frumlyfjum, aðallega geðlyfjum. Næsta ár réðumst við í töluverðar fjárfestingar í þróun á þessum lyfjum og fyrsta lyfið kemur á markað í ár.“

Gjalddagar á lánum voru framlengdir til þess að tryggja að Alvogen væri vel fjármagnað þangað til fyrsta lyfið kæmi á markað og einnig var fjármagnið sem fékkst fyrir starfsemina í Mið- og Austur-Evrópu nýtt til að fjárfesta í söluinnviðum í Bandaríkjunum.
„EBITDA fór töluvert niður árin 2019 og 2020, eins og við bjuggumst við, en við erum að sjá mikla aukningu í ár og næstu ár þegar frumlyfin koma á markað.“
Starfsemi Alvogen í Asíu er rekin undir nafninu Lotus, sem er skráð í kauphöllinni í Taívan. „Við fjárfestum í Lotus fyrir sjö árum. Okkar sýn var að byggja Lotus upp sem leiðandi í krabbameins-samheitalyfjum og auka þannig aðgengi sjúklinga að nýjustu lyfjunum um allan heim. Við höfum fjárfest mikið í gæðakerfum, framleiðsluaðstöðu og þróun starfsemi fyrirtækisins í Taívan,“ segir Róbert. Fyrirtækið hefur tryggt sér samstarfssamninga við mörg af leiðandi samheitalyfjafyrirtækjum heims til að annast sölu og markaðssetningu lyfjanna.
„Líkt og Alvotech hefur Lotus tryggt sér aðgengi að flestum lykilmörkuðum fyrir lyfin sem koma á markað á næstu árum. Árið 2019 hlaut Lotus Asia Pacific Enterprise Awards (APEA) fyrir að vera eitt af átta bestu fyrirtækjum á sviði frumkvöðlastarfsemi og sjálfbærni í Asíu. Verðlaunin eru veitt af Enterprise Asia og undirstrika hversu langan veg fyrirtækið hefur farið síðan Alvogen eignaðist það,“ segir Róbert.
Væri ekki starfandi forstjóri ef ásakanirnar væru réttar
Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri Alvogen og einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman um langt skeið, bar Róbert þungum sökum í vor og sakaði hann meðal annars um að koma illa fram við starfsfólk.
„Ég hef ekki tjáð mig mikið um þetta mál vegna þess að þetta er viðkvæmt starfsmannamál. En ásakanirnar voru skoðaðar og niðurstaðan var alveg skýr,“ segir Róbert og vísar þar til úttektar lögfræðistofunnar White & Case LLP. Í niðurstöðu lögfræðistofunnar kom fram að allir starfsmenn sem rætt var við hefðu borið Róberti söguna vel og engin gögn bentu til þess að eitthvað athugavert væri við stjórnarhætti hans.
„Ef þessar fullyrðingar hefðu verið réttar er ljóst að ég væri ekki starfandi forstjóri Alvogen í dag. Ég hef fullt traust stjórnar, hluthafa og starfsmanna eins og staðan er í dag,“ segir Róbert.
„Það sem stendur upp úr er að hjá Alvogen líður fólkinu vel í vinnunni og það er ánægt með mína stjórnun. En þetta mál hefur tekið á mig persónulega og haft truflandi áhrif á reksturinn og jafnvel einstaka starfsmenn, vegna áreitis frá utanaðkomandi aðilum.“
Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri var fullyrt að hann hefði fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni fjárfesti í nóvember 2020. Fullyrt var að tilgangurinn, samkvæmt lýsingu Halldórs sjálfs, hefði verið að „afla upplýsinga í því skyni að reyna að koma sér í aðstöðu sem gæti nýst honum til að gera kröfur á hendur félaginu um fjárhagslegt uppgjör sér til handa.“
Liggur fyrir að þessi fundur hafi átt sér stað og tengst ásökunum á hendur þér?
„Já, það liggur fyrir, þessir tveir einstaklingar eru í töluverðu sambandi.“
Snöggur að sanna sig hjá Delta
Hvernig hófst ferillinn í lyfjageiranum?
„Ég ætlaði alltaf að verða læknir, en þegar nær dró háskólanámi togaði viðskiptafræðin einnig í mig. Ég var tvístígandi, skráði mig í bæði fögin en þurfti svo að velja annað hvort. Ég man að ég sat fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands, kastaði peningi upp á það og endaði þannig í viðskiptafræði,“ segir Róbert.
Að lokinni útskrift hóf hann störf hjá Samskipum og var þar til ársins 1999, þegar honum bauðst að taka við starfi forstjóra lyfjafyrirtækisins Delta, sem var með verksmiðju í Hafnarfirði. „Ég fékk símtal, þá 29 ára gamall, og var boðaður í viðtal.
Þetta var erfiður tími því stofnandi Delta sem hafði gegnt forstjórastöðunni var vel liðinn og það var starfsmönnum fyrirtækisins mikið áfall að honum hefði verið sagt upp. Síðan er ráðinn ungur maður sem lítur út fyrir að vera enn yngri en hann er. Fyrstu mánuðirnir voru nokkuð þungir og maður þurfti að vera snöggur að sanna sig.“
Delta var í töluverðum fjárhagsvandræðum þegar Róbert tók við og lokað hafði verið á fyrirgreiðslur frá viðskiptabanka fyrirtækisins.
„Delta átti í erfiðleikum með að koma tveimur lyfjum á markað og ég átti frumkvæði að því að eiga í samskiptum við erlendar lyfjastofnanir til að greiða úr því. Við náum öðru lyfinu á markað strax sama ár og þá fór félagið úr gríðarlegu tapi í umtalsverðan hagnað.“
Eins og kunnugt er sameinuðust Delta og Pharmaco árið 2002 og úr varð Actavis, sem var verðmetið á 500 milljarða króna þegar félagið var skráð á markað árið 2007.