Bókin „Undir yfir­borðinu – Norska lax­eldis­ævin­týrið- Lær­dómur fyrir Ís­lendinga?“ eftir norsku blaða­konuna Kjersti Sand­vik, er komin út í þýðingu Magnúsar Þórs Haf­steins­sonar.

Sand­vik er blaða­maður hjá sjávar­út­vegs­blaðinu Fi­s­keribladet (áður Fiskaren) og hefur fjallað um fisk­eldis­mál í aldar­fjórðung. Hún var sam­starfs­maður Magnúsar Þórs blaða­manns á Fiskaren 1996-2000.

Bókin var gefin út í Noregi árið 2016 en var endur­skoðuð og upp­færð af höfundi fyrir ís­lensku út­gáfuna. Mikil­vægur hluti bókar­innar er vandaður þáttur Magnúsar Þórs í eftir­mála og aftan­máls­greinar til skýringar fyrir ís­lenska les­endur. Magnús er menntaður í fisk­eldis- og fiski­fræði frá norskum há­skólum.

Pólitík, ofsa­gróði og brask

Bókin er sögu­lýsing á „lax­eldis­ævin­týrinu“ í Noregi, þróun, ný­sköpun og á­hættu­sömum fjár­festingum. Lax­eldi hefur verið stundað í sjó­kvíum við Noreg í ára­tugi. Það er einn máttar­stólpa norsks at­vinnu­lífs. Frá 1987 til 2018 ríf­lega tvö­faldaðist starfs­manna­fjöldinn. Laxa­fram­leiðsla jókst 28 falt. Nú er hún nær 1,3 milljónir tonna á ári.

Höfundur er marg­orður um ofsa­­gróða sumra eldis­fyrir­tækja. Lesandi fær það jafn­vel á til­finninguna að sá hagnaður hafi verið ó­heppi­legur. Þessi á­hersla er ljóður á bókinni. Væri þetta sama „ævin­týrið“ ef ekki hefði gengið vel og skilað miklu? Sjálf tekur Sand­vik á­gætt dæmi af sveitar­fé­lagi í Norður-Noregi sem stóð í mikilli varnar­bar­áttu fyrir daga lax­eldisins en bjargaðist fyrir til­stilli þess.

Laxeldi í Harðangursfirði í Hörðalandsfylki á vesturströnd Noregs.
Nordicphotos/ Getty Images

Stefnu­leysi stjórn­valda

Sand­vik segir að þátt­taka norskra stjórn­valda í eldinu hafi í upp­hafi ein­kennst af stefnu­leysi. Fyrst hafi þau deilt út ó­keypis eldis­leyfum en það hafi tekið miklum breytingum. Rými fyrir eldi er tak­mörkuð auð­lind og nauð­syn­legt að setja þak á fjölda leyfa. Fyrir tekjur af sölu þeirra hafa norsk stjórn­völd sett á stofn Sjávar­eldis­sjóð. Þangað renna fjár­munir sem fisk­eldis­fyrir­tækin greiða fyrir stækkun innan nú­verandi leyfa­kerfis auk sölu nýrra leyfa sem lúta upp­boðs­kerfi. Á­kveðið var að 80 prósent rynnu til fisk­eldis­sveitar­fé­laga og 20 prósent til ríkisins.

Sand­vik segir lax­eldið hafa mikil ítök í norskum stjórn­mála­heimi og verður tíð­rætt um ýmsa spillingu og brask með eldis­leyfi. Hags­muna­gæsla af ýmsu tagi nær upp í efstu lög norskrar stjórn­sýslu og stjórn­mála. Braskið er efa­lítið raun­veru­legt en spillingar­myndin sem höfundur dregur upp er ekki sann­færandi.

Höfundi tekst betur upp þegar hún lýsir því hvernig at­vinnu­grein­in brást við gagn­rýni og lék fórnar­lamb í stað eðli­legrar sjálfs­skoðunar.

Ó­líkt Ís­landi eru eldis­leyfi boðin upp í Noregi, enda tak­mörkuð auð­lind. Tekjur af sölu leyfa renna í sér­stakan Sjávar­eldis­sjóð. 80 prósent hans renna til fisk­eldis­sveitar­fé­laga og 20 prósent til ríkisins.

Um­hverfis­vandinn

Sand­vik segir að eldi í opnum net­kvíum sé full­reynt í Noregi. Það eru net­pokar í sjó sem hanga í eins konar ramma. Þær kvíar gangi ekki til fram­tíðar vegna þess mikla um­hverfis­vanda sem þær skapi. Villtir laxa­stofnar Noregs urðu fyrir skakka­föllum þegar eldis­lax slapp úr kvíum og blandaðist villtum laxi. Þessi slys, mikið af laxalús og laxa­úr­gangi, auk erfiðra sjúk­dóma í eldis­fiski, kalli á nýjar lausnir, svo sem lokaðar kvíar í sjó. Eitt fyrir­tæki í Eyja­firði á vegum norskra aðila er að vinna með slíka lausn. Að því ég best veit hefur erfða­blöndun ekki fundist hér á landi.

En þrátt fyrir eld­móðinn skynja les­endur vönduð vinnu­brögð þar sem reynt er að gæta ó­hlut­drægni.

Leið­sögn fyrir Ís­land

Frekara eldi verður ekki leyft við strendur Noregs því náttúran er talin við þol­mörk. Það er ein á­stæða þess að norsk eldis­fyrir­tæki hasla sér nú völl í ís­lenskum fjörðum. Sömu eldis­að­ferðum er að mestu beitt með fisk af norsku kyni. Þau líf­fræði­legu og vist­fræði­legu vanda­mál sem upp hafa komið í Noregi gætu orðið til ama hér.

Þetta norska eignar­hald hefur stund­um verið rang­lega gagn­rýnt. Fremur ætti að fagna því að hingað berist mikil­væg þekking og á­hættu­fjár­magn. Jafn­framt er þó mikil­vægt að skilja hvað hefur vel eða illa tekist á þeirra heima­velli. Þannig forðumst við endur­tekningu þess sem úr­skeiðis fór í Noregi og víðar. Þessi bók er því þarft inn­legg í ís­lenska stefnu­mótun og sýn.

„Undir yfir­borðinu – Norska lax­eldis­ævin­týrið- Lær­dómur fyrir Ís­lendinga?“
Bókarkápa