Hagsjá Landsbankans fjallar um gengi krónunnar í dag. Þar kemur fram að hagfræðingar bankans spáðu því í október að evran myndi kosta 139 krónur í lok árs. Því hafi komið á óvart að krónan skyldi veikjast í byrjun nóvember og fór evran í 150 krónur um miðjan nóvember. Hún styrktist þó örlítið seinni hluta nóvember, m.a. vegna þess að Seðlabankinn greip inn í, en sú styrking gekk til baka og við lok árs kostaði evran 152 krónur.

Margir samverkandi þættir

Fram kemur að nýlegar hagtölur skýri hvað gerðist. Engin einhlýt skýring er heldur um nokkra samverkandi þætti að ræða. Einn helsti áhrifaþátturinn var aukinn halli á vöruviðskiptum við útlönd, þ.e. verðmæti þess sem við fluttum inn var mun meira en þess sem við fluttum út. Auk þess var nettó fjármagnsflæði út úr landinu vegna verðbréfafjárfestinga, kaup lífeyrissjóða á gjaldeyri voru nokkuð rífleg og staða framvirkra samninga með gjaldeyri dróst saman. Allt hafði þetta áhrif til veikingar krónunnar. Samtímis greip Seðlabankinn lítið inn í markaðinn til að styðja við krónuna.

Mikill halli á vöruskiptajöfnuði

Tölur um vöruviðskipti síðustu mánuði ársins 2022 voru mjög neikvæðar fyrir krónuna. Til að átta sig betur á gjaldeyrisflæði tengdu vöruviðskiptum við útlönd er best að skoða þau án skipa og flugvéla, enda fylgir þeim viðskiptum yfirleitt ekki gjaldeyrisflæði þegar þau eiga sér stað. Án skipa og flugvéla var 52 milljarða halli á vöruviðskiptum í október og 43 milljarða halli í nóvember. Þetta var mun meiri halli en verið hafði fyrri mánuði ársins. Hallinn minnkaði aftur í desember, var 13 milljarðar. Munaði þar mestu að í desember var flutt út meira af áli og álafurðum og minna flutt inn af bensíni og fjárfestingarvörum en mánuðina á undan. Hallinn á vöruviðskiptum við útlönd (án skipa og flugvéla) var 108 milljarðar á 4. ársfjórðungi 2022.

En hvað með þjónustujöfnuðinn?

Á síðustu árum höfum við búið við viðvarandi halla á vöruviðskiptum við útlönd. Á uppgangstíma ferðaþjónustunnar, áður en heimsfaraldurinn skall á, dugði ríflegur afgangur af þjónustuviðskiptum til þess að vega upp hallann á vöruviðskiptum svo afgangur varð af viðskiptum við útlönd í heild. Mesti afgangur sem mælst hefur á þjónustuviðskiptum við útlönd á fjórða ársfjórðungi síðustu ára er árið 2019 þegar afgangurinn mældist 62 milljarðar. Mikill afgangur á þjónustujöfnuði þann fjórðung skýrðist að hluta til af 30 milljarða tekjum vegna einkaleyfa í lyfjaiðnaði sem komu til hækkunar, en síðustu þrjú ár hafa þessi gjöld verið nokkuð há á 4. ársfjórðungi.

Ef við berum síðan saman það sem við vitum um þjónustujöfnuð á fjórða ársfjórðungi 2022 við 2019 var fjöldi erlendra ferðamanna svipaður í október og nóvember, en utanlandsferðir Íslendinga voru mun fleiri síðasta haust samanborið við haustið 2019. Þetta endurspeglast í halla af greiðslukortum sem var meiri í október og nóvember í fyrra (-11 milljarðar) en í sömu mánuðum 2019 (2 milljarðar Það eru því mjög litlar líkur á að gjaldeyrisflæði vegna þjónustuviðskipta hafi náð að vinna upp 108 ma.kr. halla á vöruviðskiptum (án skipa og flugvéla) á fjórða ársfjórðungi 2022. Þess vegna hafa gjaldeyrisviðskipti vegna vöru og þjónustu valdið miklum þrýstingi til lækkunar krónunnar. Að okkar mati er þetta lang stærsti áhrifavaldur þess að krónan veiktist á síðustu mánuðum 2022.

Nettó fjármagnsflæði út úr landinu vegna verðbréfafjárfestingar

Í júní í fyrra var nettó fjármagnsflæði inn í landið í verðbréfum vegna 42 milljarða erlendrar skuldabréfaútgáfu íslenskra viðskiptabanka. Síðan hefur verið viðvarandi halli á verðbréfafjárfestingu, þ.e. Íslendingar hafa keypt meira af erlendum verðbréfum en erlendir aðilar hafa keypt af íslenskum verðbréfum. Frá júlí fram til nóvember í fyrra (desembertalan er ekki komin) hefur hallinn verið að meðaltali um 16 milljarðar. á mánuði. Þetta eru mun minni upphæðir en af vöruviðskiptum, en hafa engu að síður áhrif til veikingar á krónunni.

Lífeyrissjóðirnir keyptu frekar mikið af gjaldeyri

Lífeyrissjóðirnir eru frekar stórir fjárfestar á erlendra verðbréfa, enda meðal stærstu fjárfesta hér á landi. Stundum getur verið tímatöf milli þess sem lífeyrissjóðirnir kaupa gjaldeyri og að þeir fjárfesti fyrir hann í erlendum verðbréfum. Áhrifin á krónuna koma fram þegar þeir kaupa gjaldeyrinn, en ekki þegar þeir fjárfesta fyrir hann erlendis.

Alls voru hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna 91 milljarður á fyrstu 11 mánuðum ársins. Þetta er mun meira en árið áður þegar þau námu 50 milljörðum yfir sama tímabil og árið 2020 þegar þau námu 56 milljörðum. Hrein kaup í október og nóvember voru 22 milljarðar í samanburði við 2 milljarða 2021 og 11 milljarða 2020. Ólíkt árunum 2021 0g 2020 seldu lífeyrissjóðirnir mjög lítið af gjaldeyri í október og nóvember í fyrra, en árið 2021 seldu þeir gjaldeyri fyrir 10 milljarða og 2020 fyrir 16 milljarða þessa tvo mánuði.

Seðlabankinn greip lítið inn

Síðustu þrjá mánuði ársins 2022 veiktist krónan um 7 prósent á móti evru, þ.e. evran fór úr því að kosta 141 krónu í að kosta 152 krónur. Að þessu sinni greip Seðlabankinn lítið inn í. Hann greip inn í þrisvar í nóvember og seldi evrur fyrir alls 4,8 milljarða. Að mati hagfræðinga Landsbankans er stefna Seðlabankans varðandi inngrip að koma í veg fyrir óeðlilega miklar hreyfingar á gjaldeyrismarkaði innan dags en að hafa lítil áhrif á langtíma gengisþróun krónunnar. Þannig grípi hann inn sé að myndast hringamyndun á markaðinum og taki stundum stórar fjármagnshreyfingar fram hjá markaðinum. Segja megi að ákvarðanir bankans á síðustu mánuðum 2022 hafi verið í samræmi við þá stefnu.

Hvað gerist í ár?

Landsbankinn hefur ekki birt nýja gengisspá frá því að bankinn spáði því í október að gengið myndi styrkjast í vetur. Hagfræðingar bankans segja gengi krónunnar vera þá hagstærð sem erfiðast sé að spá rétt um og ekki óalgengt að opinberar gengisspár úreldist hratt líkt og nú gerist. Í fljótu bragði sé lítið sem ætti að valda miklum breytingum á þróun krónunnar næstu misseri. Ferðagleði Íslendinga gæti eitthvað dregist saman, en hvort það hafi næg áhrif á krónuna sé óljóst. Af þeim áhrifaþáttum sem hér hafa verið tíundaðir eru fáir líklegir til þess að breytast hratt á komandi mánuðum. Hlutverk fljótandi gjaldmiðils er að rétta af utanríkisviðskipti í ójafnvægi með því að gera erlendar vörur, þjónustu og eignir dýrari og innlendar vörur hlutfallslega ódýrari, líkt og við sjáum nú gerast. Hvort nú sé komið á nýtt jafnvægi þar sem evran kostar 150 krónur í stað 140, eins og síðasta sumar, verði síðan að koma í ljós.