„Kaupfélag Skagfirðinga nýtti tækifærið til að styrkja sig stefnulega og um leið auka umsvif í atvinnulífinu á heimaslóðunum í Skagafirði,“ sagði í umsögn eins dómnefndarmanns Markaðarins um viðskipti FISK-Seafood, dótturfyrirtækis Kaupfélags Skagfirðinga, með hlutabréf Brims í lok sumars.

Óhætt er að segja að fjárfesting FISK-Seafood, dótturfélags Kaupfélags Skagfirðinga, á nærri 10,2 prósenta hlut í Brimi, sem var keyptur fyrir samtals 6,62 milljarða króna í þrennum viðskiptum á tímabilinu 18. ágúst til 28. ágúst fyrr á þessu ári, hafi skilað félaginu ríkulegri ávöxtun.

Aðeins örfáum dögum síðar, eða nánar tiltekið þann 11. september síðastliðinn, seldi FISK-Seafood allan hlut sinn í Brimi til Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánsson, forstjóra Brims, fyrir 7,94 milljarða króna, eða með um 1.320 milljóna hagnaði. Á ársgrundvelli lætur nærri lagi að ávöxtun (IRR) FISK-Seafood af viðskiptunum hafi numið liðlega 4.000 prósentum.

Einn af álitsgjöfum Markaðarins benti á að kaupverðið hefði verið talsvert undir innlausnarvirði Brims ef horft væri á markaðsvirði kvótaeignar félagsins.

„Skömmu síðar seldi einmitt FISK bréfin sín félagi nátengdu Brimi og fékk að stórum hluta greitt fyrir með rúmlega 2.600 tonna aflaheimildum í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Keypti sem sagt undir innlausnarvirði, seldi á innlausnarvirði og hagnaðist um 1,3 milljarða króna á viðskiptunum. Um leið jók FISK aflaheimildir sínar um 10 prósent og er nú þriðja stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins,“ sagði álitsgjafinn.

Í gegnum tíðina hefur meirihluti aflaheimilda félagsins verið keyptur á markaði fremur en að hafa verið úthlutað til félagsins byggt á veiðireynslu

.

„Þannig heldur merkileg atvinnuuppbygging KS áfram sem hefur í gegnum árin byggt upp þetta sterka sjávarútvegsfyrirtæki með vel tímasettum kaupum á fyrirtækjum og kvóta – í gegnum tíðina hefur meirihluti aflaheimilda félagsins verið keyptur á markaði fremur en að hafa verið úthlutað til félagsins byggt á veiðireynslu,“ bætti hann við. Í þessu samhengi má rifja upp að FISK-Seafood keypti allan hlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í Vinnslustöðinni á árinu 2018. Um var að ræða þriðjungshlut alls hlutafjár í Vinnslustöðinni og kaupverðið var 9,4 milljarðar króna.

Veruleg aukning á kvóta FISK-Seafood vakti mikla hrifningu í sveitarstjórn Skagafjarðar en allir oddvitar í sveitarstjórninni lýstu yfir mikilli ánægju með viðskiptin í grein í héraðsblaðinu Feyki.

„Við viljum sjá styrk fyrirtækisins nýttan sem mest til uppbyggingar í Skagafirði, en auðvitað vitum við að KS bæði á og verður að ávaxta fjármuni sína að einhverju marki í viðskiptatækifærum utan heimabyggðarinnar og jafnvel utan landsteinanna. Það er því afar ánægjulegt þegar slíkum „útrásarverkefnum“ lýkur með vel heppnaðri sölu og umtalsverðri verðmætasköpun sem skilar sér beint inn í sveitarfélagið,“ skrifuðu oddvitarnir.