Saga Siggi‘s skyr er lyginni líkust. Ungur hagfræðimenntaður Íslendingur með sítt hár og tvær hendur tómar, gerir atlögu að því að selja skyr að íslenskri fyrirmynd í New York árið 2005. Án snefils af reynslu hvað varðar þróun, framleiðslu eða sölu á matvælum.

Það sem gerir söguna enn merkilegri er að á þeim tíma var engin sambærileg vara á boðstólum og því voru Bandaríkjamenn ekki komnir á bragðið. Þetta var áhættusamt nýsköpunarverkefni.

Fyrir um ári seldi stofnandinn Sigurður Kjartan Hilmarsson og fleiri fyrirtækið fyrir himinháar fjárhæðir. Ekki hefur fengist staðfest hvert söluverðið var en í frétt í Markaðnum í dag er upplýst að það hafi verið að lágmarki 40 milljarðar króna. Það er með ólíkindum. Erfitt er að ímynda sér að íslenskur frumkvöðull hafi náð betri ávöxtun fyrir sjálfan sig og aðra hluthafa.

Uppbygging fyrirtækisins var ekki alltaf dans á rósum. Eflaust hefur Sigurður Kjartan þurft að krossa fingur, oftar en hann hefði viljað, og vonast til að fyrirtækið myndi standast mótlætið sem það mætti þá stundina.

Það er ekki nóg að detta á réttu hugmyndina eða taka við stýrinu á rótgrónu fyrirtæki til að allt gangi í haginn. Það er eins og Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, sagði við Markaðinn um áramótin: „Það er ekkert gefið í viðskiptum. Það þarf að berjast fyrir öllu.“

Fyrirtæki þurfa ávallt að reyna að sanna fyrir viðskiptavinum og fjárfestum að þau eigi erindi á markað. Gæfan er hverful í viðskiptum. Það getur fljótt fjarað undan hjá fyrirtækjum og fjárfestum.

Flestar atvinnugreinar eru um þessar mundir að taka miklum breytingum og því verða fyrirtæki að bregðast við breyttum aðstæðum eða eiga á hættu að þurfa að draga saman seglin, jafnvel daga uppi. Til dæmis þurfa ýmis stöndug fyrirtæki að bregðast við aukinni sókn Vesturlandabúa í heilnæmar vörur, tækifæri sem Sigurður Kjartan stökk á.

Á sama tíma mættu margir landsmenn vera hófsamari í nálgun sinni gagnvart atvinnulífinu því fá fyrirtæki geta okrað á viðskiptavinum og þau munu ekki gnæfa yfir samfélaginu um aldur og ævi. Það er nefnilega alltaf einhver Siggi sem ætlar að brjóta sér leið á markaðinn.