Nýir rekstraraðila hafa nýverið tekið við veitingastaðnum Snaps á Óðinsgötu. Það eru þeir Þórir Helgi Bergs­son, sem lengi rak veitinga­staðinn Bergs­son mat­hús í Templara­sundi í Kvosinni, á­samt veitinga­mönnunum Soner og Umit sem eru upp­runa­lega frá Tyrk­landi en hafa búið á Ís­landi um ára­bil.

Fram kemur í tilkynningu á samfélagsmiðlum að stefnt sé að því að þeir verði meðeigendur á næstunni.

„Planið er ein­falt. Við ætlum að endur­vekja gamla góða Snaps, hlúa vel að starfs­fólki og tryggja að maturinn, stemningin og hlýi góði andinn sem við öll þekkjum taki á móti ykkur þegar þið komið næst,“ segir í færslu sem deilt var í gær en þar segir að plan þeirra sé að koma staðnum aftur á réttan kjöl.

Starfsfólk gekk út

Fjallað hefur verið um staðinn ný­verið í fréttum á Vísi en stór hluti starfs­fólksins sagði starfi sínu lausu vegna ó­á­nægju með nýjan rekstrar­aðila. Í færslunni er farið yfir þá erfið­leika sem staðurinn hefur gengið í gegnum, bæði tengt heims­far­aldri og öðru.

„Snaps er ekki bara ein­hver veitinga­staður. Frá stofnun hefur hann verið eins konar al­manna­eign í Þing­holtunum. Snaps opnaði í kjöl­far hrunsins og var fyrsti staðurinn sem gekk vel á þeim tíma án þess að vera við aðal­götu. Snaps var hliðar­götu­frum­herji og breytti leiknum með kósý and­rúms­lofti, af­slappaðri þjónustu og góðum bistró-mat á sann­gjörnu verði. Stofn­endurnir voru vinir, starfs­fólkið eins og fjöl­skylda og fastakúnnarnir og aðrir gestir fylltu húsið af lífi alla daga vikunnar - frá morgni til kvölds,“ segir í færslu sem að eig­endur birtu í gær.

Þeir segja að þeir finni að þeim sem þyki vænt um staðinn og þeir sem hafa unnið þar eða sótt staðinn reglu­lega þyki sárt að heyra af erfið­leikunum

„Við finnum að þeim sem þykir vænt um Snaps, hafa unnið á honum eða sótt hann reglu­lega í gegnum árin, þykir sárt að heyra af staðnum í erfið­leikum. Snaps hefur gengið í gegnum margt að undan­förnu, vöxt, eig­enda- og manna­breytingar og tak­markanir á opnunar­tíma í Co­vid. Snaps opnaði að nýju í apríl­mánuði á þessu ári eftir að hafa verið lokaður í nokkra mánuði. Fyrir stað, sem gat í krafti vin­sælda sinna og góðs anda haldið í gott starfs­fólk lengur en flestir aðrir veitinga­staðir, var svona löng stöðvun sér­stak­lega erfið. Við höfum verið að finna fæturna síðan. Það hefur vissu­lega ekki verið alveg þrauta­laust en við höfum líka fundið mikinn vel­vilja frá fasta­gestum sem hafa margir verið að snúa aftur til okkar.“

Færsluna er hægt að sjá hér að neðan.