Viðburðahaldarar segja það vera fáránlegt hvað það taki stjórnvöld langan tíma að aflétta samkomutakmörkunum hér á landi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta þætti Markaðarins sem sýndur verður á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Mér finnst eins og stjórnvöld séu bara að malda í móinn. Þau tönnlast stöðugt á því að það sé verið að fylgja áliti sérfræðinga en ég sé ekki hver ástæðan fyrir því er að draga þetta á langinn miðað við höfum séð að verið sé að aflétta öllum takmörkunum í Danmörku og Noregi,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, veitingamaður og viðburðahaldari.

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live, tekur í sama streng.

„Það er gjörsamlega fráleitt hvað þetta tekur langan tíma. Við erum að sjá það núna að aðgerðirnar eru miklu verri en vírusinn sjálfur. Við erum á þeim stað í dag. Það er eins og yfirvöld séu miklu betri í því að skella samfélaginu í lás heldur en að opna,“ segir Ísleifur og bætir við að stjórnvöld hafi ekki áttað sig á því að viðburðahaldarar geti lítið gert við núverandi aðstæður.

„Nú síðasta föstudag stigu þau fram rosa bjartsýn og kynna aðgerðir og meðal annars opna bari. Þau halda að þau séu að hleypa viðburðum af stað með 500 manna takmörk en eins metra reglan er enn inni og grímuskyldan líka. Þau virðast ekki skilja að eins metra reglan drepur allt. Hún gerir það að verkum að við getum ekki selt 30 prósent af sætum í salnum og þar með gengur kostnaðaráætlunin ekki upp.“

Ísleifur segir jafnframt að þeir hafi beðið með marga tónleika í 2 ár sem stendur til að halda í mars. „Við getum ekkert farið að skila 30 prósent af miðunum eða haldið aðra tónleika fyrir þá. Ef stjórnmálamenn halda að þeir séu að hleypa viðburðunum af stað þá er það bara misskilningur.“