Seðlabanki Íslands hefur selt gjaldeyri fyrir samtals 282 milljónir evra, jafnvirði 46 milljarða króna, frá því að bankinn boðaði þann 9. september síðastliðinn að hann myndi hefja reglulega sölu á gjaldeyri til ársloka í því skyni að auka dýpt markaðarins og koma á meiri stöðugleika. Gengi krónunnar hækkaði skarpt fyrstu dagana eftir tilkynningu bankans – úr tæplega 166 krónum gagnvart evru í 160 krónur – en hefur síðan stöðugt lækkað og er nú komið á sömu slóðir og áður þrátt fyrir mikil gjaldeyrisinngrip Seðlabankans.

Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari hjá Arion banka, segist í samtali við Markaðinn telja að það sé enn áhugi hjá erlendum aðilum og lífeyrissjóðum á að kaupa gjaldeyri þó gengisveikingin undanfarna daga kunni að hafa dregið úr þeim áhuga. „Eins og staðan er í dag,“ útskýrir hann, „er enginn annar en Seðlabankinn sem getur útvegað þann gjaldeyri.“

Af þeim gjaldeyri sem Seðlabankinn hefur selt frá tilkynningu bankans í september er aðeins liðlega þriðjungur vegna reglulegrar sölu til viðskiptavaka upp á 3 milljónir hvern viðskiptadag. Gjaldeyrissala Seðlabankans á undanförnum vikum hefur einkum komið til vegna sölu erlendra fjárfestingasjóða á ríkisskuldabréfum. Þannig hefur BluBay Asset Management, eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki í Evrópu, losað um meginþorra allra ríkisbréfa í eigu sjóðsins og selt fyrir vel á fjórða tug milljarða króna frá því í ágúst, að sögn þeirra sem þekkja vel til á skuldabréfamarkaði.

Þá var samkomulag Seðlabankans við lífeyrissjóðina, um að þeir myndu gera hlé á gjaldeyriskaupum sínum, ekki framlengt þegar það rann út þann 17. september síðastliðinn. Hafði samkomulagið varað í sex mánuði.

Ragnar Björn segir að áframhaldið á gjaldeyrismarkaði verði í höndum Seðlabankans. „Það má líka líta á þetta sem tækifæri fyrir bankann til að minnka gjaldeyrisforðann sem er stór og dýr og stóð í rúmlega 943 milljörðum króna í lok september. Það er líklegt og eðlilegt að Seðlabankinn grynnki talsvert á forðanum á þessu ári og því næsta, þar til ferðaþjónustan tekur við sér. Það er hlutverk gjaldeyrisforða að viðhalda stöðugleika þegar áföll dynja yfir og honum var einkum safnað upp þegar gjaldeyrisinnflæðið var meira en kerfið réð við á árunum 2015 til 2017.“

Það má líka líta á þetta sem tækifæri fyrir bankann til að minnka gjaldeyrisforðann sem er stór og dýr.

Frá upphafi kórónaveirufaraldursins, sem hefur nánast þurrkað út allar gjaldeyristekjur vegna ferðaþjónustunnar og eins verið mikið högg fyrir aðrar útflutningsgreinar, nemur hrein gjaldeyrissala Seðlabankans jafnvirði um 83 milljarða króna, eða tæplega 10 prósentum af stærð forðans. Þrátt fyrir að gjaldeyrisforðinn hafi minnkað nokkuð á árinu er hann enn langt yfir forðaviðmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þannig gæti Seðlabankinn selt samtals um 2,5 milljarða evra, jafnvirði um 410 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi, áður en forðinn væri kominn að lágmarksviðmiðum AGS.

Samhliða gengisveikingu krónunnar hefur tólf mánaða verðbólga Seðlabankans aukist á undanförnum mánuðum – úr 2,4 prósentum í febrúar í 3,5 prósent í dag – en verðbólguvæntingar hafa hins vegar að mestu haldist við 2,5 prósent markmið Seðlabankans. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að gengi krónunnar væri „orðið mjög lágt, mun lægra en fær staðist við eðlilegt framleiðslustig í efnahagslífinu.“

Fram hefur komið í máli seðlabankastjóra opinberlega að ein af þeim leiðum sem ríkissjóður gæti farið til að fjármagna umtalsverðan hallarekstur – lánsfjárþörfin er yfir 500 milljarðar á næstu tveimur árum – væri að skoða skuldabréfaútgáfu erlendis. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur seðlabankastjóri á síðustu vikum talað fyrir því innan stjórnkerfisins og í samtölum við ráðherra að ríkið ráðist í slíka erlenda fjármögnun þar sem horft væri til þess að sækja vel á annað hundrað milljarða. Slík útgáfa, sem myndi minnka innlenda fjárþörf ríkissjóðs, ætti einnig að vera til þess fallin að styðja við gengi krónunnar með auknu innflæði fjármagns.