Félag í eigu hjónanna Steinunnar Margrétar Tómasdóttur og Aðalsteins Karlssonar, fjárfestis og fyrrverandi eiganda heildverslunarinnar A. Karlsson, hefur gengið frá kaupum á fasteigninni að Garðastræti 37 þar sem starfsemi GAMMA Capital Management, dótturfélags Kviku banka, var til húsa um margra ára skeið.

Kaupin, sem kláruðust undir lok síðasta árs, eru gerð í gegnum eignarhaldsfélagið SMT100 og nemur kaupverðið samtals 420 milljónum króna. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvaða starfsemi mun verða starfrækt í húsinu, að sögn Aðalsteins, en það er um 680 fermetrar að stærð og lóðin um 977 fermetrar.

Fasteignamat hússins stendur í tæplega 248 milljónum króna en í árshlutareikningi GAMMA um mitt síðasta ár var virði þess bókfært á 372 milljónir króna.

Húsið að Garðastræti 37, sem GAMMA keypti árið 2013, var reist í lok fjórða áratugs síðustu aldar og er á meðal elstu fúnkishúsa landsins og hýsti meðal annars lengi vel starfsemi Síldarútvegsnefndar.

Gengið var formlega frá kaupum Kviku banka á GAMMA í mars árið 2019. Í kjölfarið fluttist öll starfsemi sem heyrir undir Kviku, sem hafði verið í Borgartúni 25, yfir í Höfðatorgsturninn við Katrínartún.

GAMMA flutti skrifstofur sínar í Katrínartún undir árslok 2019. Höfuðstöðvar félagsins að Garðastræti, en eignin samanstendur af 16 herbergjum, voru auglýstar til sölu í ágúst í fyrra.