Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipaði í dag Aðalstein Leifsson framkvæmdastjóra hjá EFTA sem ríkissáttasemjara frá og með fyrsta apríl næstkomandi. Helga Jónsdóttir settur ríkissáttasemjari mun gegna störfum fram til þess tíma.
Félagsmálaráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar síðastliðinn desember og bárust sex umsóknir um embættið, einn dró umsókn sína þó til baka. Ráðgjafanefnd sem skipuð var af félags- og barnamálaráðherra komst að þeirri niðurstöðu að þrír umsækjendur væru jafnhæfir til að sinna stöðunni.
Hæfastur í stöðuna
Það var mat félags- og barnamálaráðherra og við forsvarsmanna samtaka vinnumarkaðarins að af þessum þremur einstaklingum hafi Aðalsteinn uppfyllt best þær kröfur sem gerðar eru til þess sem skipaður verður í embættið.
Aðalsteinn hefur því víðtæka þekkingu og reynslu á samningamálum en auk fræðilegrar þekkingar hefur hann reynslu af þátttöku í samningaviðræðum, kennslu í samningatækni, ráðgjöf við samningsaðila og aðstoð við deiluaðila við að bæta samskipti en allt er þetta reynsla og þekking sem talin er mikilvæg þegar kemur að því að skipa í embætti ríkissáttasemjara að því er fram kemur á vef Félagsmálaráðuneytisins.