Aðalheiður Snæbjarnardóttir hefur tekið við nýrri stöðu sjálfbærnistjóra Landsbankans. Aðalheiður hefur unnið að sjálfbærnimálum hjá bankanum frá árinu 2019. Í frétt á heimasíðu bankans segir að með þessari nýju stöðu vilji bankinn skerpa enn frekar fókus á sjálfbærni sem verði sífellt mikilvægari og eru stór þáttur í starfi hans. Aðalheiður mun starfa náið með starfsfólki vítt og breitt um bankann, svo sem í Fjármálum og rekstri, á Fyrirtækjasviði, í Áhættustýringu og við vöruþróun.

„Sjálfbærnimálin teygja anga sína inn á öll svið bankans og út í samfélagið. Hlutverk mitt er að tryggja að þjónustustig málaflokksins uppfylli kröfur bankans og einnig að við séum að uppfylla allar skuldbindingar okkar út á við. Umfang sjálfbærnimála hjá bankanum jókst umtalsvert á árinu 2021 og við erum hvergi nærri hætt. Það verður nóg að gera nú á áratug aðgerða og munu fjármálafyrirtæki gegna lykilhlutverki í því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C. Því markmiði þurfum við að ná til að tryggja afkomu og lífsgæði mannkyns til frambúðar. Landsbankinn ætlar sér að vera áfram leiðandi í starfi fjármálafyrirtækja í sjálfbærnimálum,“ segir Aðalheiður.

Sjálfbærari fjármál

Í tilkynningunni segir að bankinn hafi lengi unnið af krafti að sjálfbærari fjármálum til að stuðla að betra umhverfi og samfélagi og vinni markvisst að fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á síðasta ári hafi verið tekin stór skref í sjálfbærnivinnu bankans. Bankinn áætlaði losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum, gaf tvisvar út græn skuldabréf, sjálfbærnimerki bankans fyrir sjálfbæra fjármögnun fyrirtækja leit dagsins ljós og við kynntur var til sögunnar nýr sparireikningur og sjóður sem stuðla að sjálfbærni.