Eignarhaldsfélagið K acquisitions, stærsti eigandi Keahótela, tapaði 1,4 milljörðum króna á árinu 2019 samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Stóran hluta af tapi samstæðunnar, sem rekur ellefu hótel víðs vegar um landið, má rekja til niðurfærslu á viðskiptavild sem nam 900 milljónum króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2019 námu um 5,7 milljörðum króna og jukust um 700 milljónir á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam um 2,3 milljörðum króna. Viðskiptavild, sem nam 5,3 milljörðum króna í byrjun árs, var hins vegar afskrifuð um 900 milljónir.

„Ekki er búið að leggja mat á hugsanlega niðurfærslu viðskiptavildar á árinu 2020 vegna kórónu­veirunnar en líklegt er að áhrif kórónuveirunnar muni valda nokkurri niðurfærslu,“ segir í ársreikningnum.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar 28.726 milljónum króna í lok ársins 2019. Eigið fé í lok ársins var 590 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið um 2,1 prósent. Kea Pt, sem er á vegum bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital Advisors, fer með 50 prósenta hlut, JL-Keahotel investor, sem er á vegum bandaríska fasteignaþróunarfélagsins JL Properties, fer með 25 prósenta hlut eins og Erkihvönn, sem er í eigu Andra Gunnarssonar, Kristjáns M. Grétarssonar, Fannars Ólafssonar og Þórðar Hermanns Kolbeinssonar.

Nýlega var gengið frá fjárhagslegri endurskipulagningu Keahótela, í gegnum hlutafjáraukningu og með samningum á milli eigenda, lánveitenda og leigusala sem tryggðu félaginu stöðugan rekstrargrundvöll vel fram á árið 2022. Landsbankinn fer með þriðjungshlut í félaginu á móti K acquisitions eftir endurskipulagninguna.

Viðræður um endurskipulagningu reksturs Keahótela, sem er ein stærsta hótelkeðja landsins og starfrækir meðal annars hina sögufrægu Hótel Borg við Austurvöll og Hótel Kea á Akureyri, höfðu staðið yfir um nokkra hríð.

Niðurstaðan var samkomulag sem batt saman hagsmuni eigenda og annarra hagsmunaaðila, sem eru annars vegar Landsbankinn og hins vegar ýmis fasteignafélög. Í því fólst að hluta skulda var breytt í hlutafé, núverandi eigendahópur kom með nýtt fé inn í reksturinn og leigusalar gerðu samkomulag um veltutengdar leigugreiðslur, sem eru þó með ákveðnu lágmarksgólfi.