Stjórnendur Air France-KLM, eins stærsta flugfélags heims, ræða nú við banka um mögulega milljarða evra lánsfjármögnun sem yrði tryggð af frönskum og hollenskum stjórnvöldum, samkvæmt heimildum Reuters. Félagið glímir við lausafjárskort í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveirunnar en starfsemi þess hefur nær stöðvast á undanförnum vikum.

Ríkin tvö, eiga hvort um sig fjórtán prósenta hlut í flugfélaginu, hafa bæði lýst yfir vilja til þess að styðja fjárhagslega við félagið.

Ekki er komin endanleg mynd á skilmála eða upphæð fjármögnunarinnar, að sögn þeirra sem þekkja vel til mála, en gengið er út frá þeirri sviðsmynd að Air France fái lánveitingu, tryggða af franska ríkinu, upp á allt að fjóra milljarða evra á meðan hollenska ríkið muni gangast í ábyrgð fyrir nærri tveggja milljarða evra láni til KLM.

Flugfélagið hefur ráðið BNP og Societe Generale sem ráðgjafa við endurfjármögnunina, að sögn Reuters.

„Við eigum eðlilega í stöðugum viðræðum við stjórnvöld í báðum ríkjum,“ segir í svari Air France-KLM.

Wopke Hoekstra, fjármálaráðherra Hollands, segir hollensk stjórnvöld hafa lengi átt í viðræðum við KLM og Air France og sér í lagi við frönsk stjórnvöld.

„Það er afar mikilvægt að hjálpa þessu mikilvæga félagi í gegnum þetta erfiða tímabil,“ nefnir hann.

Air France og KLM voru sameinuð árið 2004 en þau eru eftir sem áður áfram rekin undir eigin merkjum.

Stjórnvöld víða um heim hafa á síðustu vikum lýst yfir vilja til þess að bjarga flugfélögum sem ramba nú mörg hver á barmi gjaldþrots vegna áhrifa kórónaveirunnar. Sem dæmi samþykkti Bandaríkjaþing nýverið 58 milljarða dala björgunarpakka fyrir þarlend flugfélög á meðan félögum á borð við Lufthansa, Norwegian og SAS hefur verið lofað ríkulegum ríkisstuðningi.