Hollenski bankinn ABN Amro verður stjórnendum Íslandsbanka til ráðgjafar við undirbúning á sölu á 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað síðar á árinu.

Með ráðningu á ABN Amro er meðal annars horft til þess að Bankasýslan, sem heldur utan um 100 prósenta eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, hefur talið skynsamlegt að líta til reynslu systurstofnunar sinnar í Hollandi – NFLI – þegar hollenski bankinn var skráður í kauphöllina í Amsterdam í nóvember 2015, með sölu á 23 prósenta hlut.

Hollenska ríkið yfirtók ABN Amro í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar en eftir skráningu á markað hefur ríkið haldið áfram að minnka eignarhlut sinn í bankanum – með sölu á 6,9 prósenta hlut í þrígang á árunum 2016 og 2017 – og er enn í dag stærsti hluthafinn með rúmlega 56 prósenta hlut.