Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk, er gestur Jóns G. annað kvöld á Hringbraut. Virk er stofnun; starfsendurhæfingarsjóður, sem vinnur að því að endurhæfa fólk sem dottið hefur út af vinnumarkaðnum og koma því aftur inn á hann.

Stofnunin er sameiginlegt átak aðila vinnumarkaðarins, þ.e. vinnuveitenda og stéttarfélaga launþega, og var sett á laggirnar árið 2008 og hefur Vigdís verið framkvæmdastjóri frá upphafi.

„Talnakönnun reiknaði út að ábatinn af starfsemi VIRK hefði verið 21,3 milljarðar króna á árinu 2020,“ segir Vigdís í viðtalinu við Jón.

„Það skiptir miklu að þeir sem veikjast eða slasast og detta út af vinnumarkaði komist sem fyrst inn á hann aftur. Í því felst verðmætaaukning fyrir atvinnulífið, sparnaður hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun, auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð og áfram mætti telja. En mestu skiptir fyrir þá sem útskrifast hjá okkur að verða virkir aftur í atvinnulífinu og samfélaginu; í því felast mikil lífsgæði fyrir þessa einstaklinga.“

Að sögn Vigdísar útskrifast að jafnaði á milli 1.500 til 2.000 einstaklingar frá VIRK á hverju ári.

Stofnunin er með 10 atvinnulífstengla á sínum snærum sem eru í sambandi við mörg hundruð fyrirtæki úti um allt land.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll mánudagskvöld.