Benedikt Egill Árnason tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar LOGOS. Hann á sér mörg áhugamál, þar á meðal golf, stangveiði og skíði.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Eins og flestir Íslendingar á ég ansi mörg áhugamál, þar með talið golf, stangveiði og skíði, en ég mætti sannarlega bæta mig í þeim öllum. Á endanum snýst þetta þó væntanlega allt um fólkið sem maður stundar áhugamálin með. Við erum einmitt í góðum hópi sex fjölskyldna sem gerir mikið saman, hvort sem það eru ferðalög, skíðaferðir eða áramótaveislur. Einnig er ég í stórum hópi sem hefur farið í árlegar golfferðir í að verða 20 ár. Svo má alls ekki gleyma Þrumunni, en það er stórskemmtilegur hópur lögfræðinga (og eins arkitekts) sem spilar fótbolta á hverjum föstudegi, og þeir reyndustu þar eru að spila sitt fertugasta tímabil með félagsskapnum.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Undanfarin ár hefur mér þótt skemmtilegt að lesa bækur eftir höfunda eins og Yuval Noah Harari, Daniel Kahneman og Nassim Taleb, en í þeim er að finna margar skemmtilegar vangaveltur. Svo eru það bækur sem erfitt hefur verið að leggja frá sér eins og Red Notice eftir Bill Browder og Bad Blood eftir John Carreyrou. En Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er sennilega sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Það var ákaflega krefjandi verkefni að aðstoða frábært teymi Símans í tengslum við söluna á Mílu enda er um að ræða ein stærstu fyrirtækjaviðskipti Íslandssögunnar. Í slíkum verkefnum reynir á ansi mörg starfssvið og þá er nauðsynlegt að hafa stóran hóp til að sinna verkinu og sérfræðing í hverju horni.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Um þessar mundir er helsta áskorun mín að finna mig í nýju starfi en á sama tíma halda áfram að sinna lögmennsku hjá stofunni. Svo er það auðvitað þessi sífellda áskorun að finna rétt samspil vinnu og einkalífs.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ég er ekki farinn að sinna áhugamálunum betur og vonandi tekst vel að draga krakkana með í þau. Þá vona ég að mér auðnist að vera enn starfandi með þeim frábæra hópi fólks sem ég vinn með í dag en um 70 manns starfa á skrifstofum stofunnar í Reykjavík og London.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Það er ansi hvetjandi að vera í kringum fólk sem vinnur að nýsköpun og finnur maður oft fyrir smitandi áhrifum áhuga og drifkrafts slíks fólks. Þannig að ég myndi vilja velja starfsframa í sprotafyrirtæki. Hins vegar tel ég líklegt að mitt samferðafólk í lífinu myndi segja að mig skorti einhver verkfæri í það.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Það er London en við hjónin bjuggum þar í þrjú ár á meðan ég starfaði hjá London-skrifstofu LOGOS á árunum 2006 til 2009. Við fjölskyldan fórum þangað um páskana og það var virkilega gaman að sýna krökkunum borgina.