Anna Fríða Gísladóttir var nýlega ráðin til flugfélagsins Play sem forstöðumaður markaðsmála. Hún á fjölmörg áhugamál og stundar hlaup og bootcamp af kappi.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég á mörg áhugamál og er því ágæt í mörgu en ekki yfirburðar í neinu. Áhugamálin eru meðal annars matseld og hvers kyns hreyfing eins og hlaup, badminton, lyftingar, veiði, skíði, dans og gönguskíði.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Þetta svar kann að hljóma eins og það sé samið sérstaklega fyrir Markaðinn, en svo er nú ekki. Líkamsklukkan hjá mér er stillt þannig að ég vakna alltaf 6.30, þrjá daga í viku fer ég á hlaupa- og bootcamp-æfingu og hina dagana nota ég tímann á meðan allir eru sofandi til að liggja upp í rúmi í símanum, fá mér kaffi og græja svo soninn fyrir leikskóla og skutla.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Þegar ég útskrifaðist fékk ég Lean In sem hefur með óbeinum hætti haft mikil áhrif á mig og sérstaklega á þeim tíma. Í dag hefur hins vegar bókalestur fengið að víkja fyrir fræðipodcöstum. Það er þó á áætlun að bæta úr því.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Á næstu vikum mun ég hefja störf sem forstöðumaður markaðsmála í geira sem ég hef ekki unnið í áður. Það verður góð áskorun sem ég hlakka mikið til að takast á við. Þar að auki er einkasonurinn að hefja koppaþjálfun sem verður líka ákveðin áskorun.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég tala af reynslu þegar ég segi að lífið er óútreiknanlegt. Það sem skiptir máli er að vera trú sjálfri sér og hafa gaman af lífinu. Rest reddast.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ætli það væri ekki eigin rekstur. Ég fæ reglulega fyrirspurnir á Instagram um uppskriftir að því sem ég elda þannig að kannski eitthvað tengt því.

Hver er þín uppáhaldsborg?

París. Síðan er Ronda á Malaga í miklu uppáhaldi, mjög rómantísk borg og góðir veitingastaðir sem skiptir mig máli því ég er mikill aðdáandi Tapas rétta, þannig það hentar mjög vel að nýi vinnustaðurinn, PLAY, fljúgi þangað.

Helstu drættir

Nám: BSc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á markaðsfræði.

Störf: Núverandi Brand and Campaign Manager hjá Bioeffect en var nýlega ráðin markaðsstjóri hjá flugfélaginu Play.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Sverri Fal Björnssyni hagfræðingi og saman eigum við soninn Björn Helga.