Jakobsson Capital verðmetur tryggingafélagið VÍS á 15 krónur á hlut en markaðsvirðið var 19,2 krónur á hlut í gær. Markaðsgengið er því 28 prósentum hærra en verðmatið.

Greinandi Jakobsson Capital man ekki eftir öðru eins sumri á hlutabréfamarkaði á yfir 20 ára ferli. Frá 1. apríl hefur hlutabréfaverð tryggingafélagsins hækkað um 28 prósent. „Tryggingafélögin voru mjög vanmetin á markaði fyrir nokkrum árum síðan og átti greinandi erfitt með að skilja verðlagninguna. Í tilfelli VÍS á hann erfitt með að skilja hækkanir síðustu vikna en tryggingarekstur eða grunnrekstur VÍS hefur verið nokkuð brottgengur undanfarin misseri. Í fyrsta skipti í mjög langan tíma er verðmatsgengi VÍS vel undir gengi á markaði,“ segir í verðmatinu sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Samsett hlutfall VÍS, það er hvernig tryggingafélaginu gekk að láta að iðgjöld mæta útgjöldum vegna vátrygginga, var 108 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Hallareksturinn má einkum rekja til veitutjóns á Háskólastorgi. „Það er því erfitt að sjá hvernig VÍS ætlar að vera með 97 til 98 prósent samsett hlutfall í ár,“ segir í verðmatinu. Í því er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 99,5 prósent í ár og verði 97,8 prósent við lok spátímans.

Rekstur tryggingafélaga er tvíþættur. Annars vegar hefðbundinn tryggingarekstur og hins vegar er fjárfest fyrir iðgjöldin. Ávöxtun fjáreigna var 5,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Kvika er stærsta hlutabréfaeign VÍS. „Ef sjón greinanda bregst honum ekki virðist VÍS hafa örlítið létt af stöðunni á fyrsta ársfjórðungi. Næststærsta eign VÍS er Arion banki sem hækkaði einnig mikið og hélt áfram að hækka mikið á öðrum ársfjórðungi. VÍS á stóra stöðu í Akta-hlutabréfasjóði sem hefur gefið mjög góða ávöxtun,“ segir verðmatinu.

VÍS á nokkrar stórar stöður í óskráðum bréfum, þar vegur þyngst Coripharma, Miðborg 105 og hlutur í Bláa lóninu.