Nám:

Meistarapróf í forystu og stjórnun, með áherslu á þjónandi forystu, frá Háskólanum á Bifröst.

LSRM-söngkennarapróf á vegum Royal School of Music.

Störf:

Vann á skrifstofu Malbikstöðvarinnar árin 2014–2020 og sinnti þar tilfallandi verkefnum á skrifstofu fyrirtækisins.

Stöðvarstjóri hjá Osteostrong á Íslandi.

Söngkennari og kórstjóri hjá Söngskólanum Domus Vox, Stúlknakór Reykjavíkur og Samkór Reykjavíkur.

Mannauðsleiðtogi hjá Malbikstöðinni.

Fjölskylduhagir:

Gift Steini Óskari matreiðslumeistara og saman eigum við þrjár dætur, þær Söndru Dögg, Maríu Ósk og Dagnýju Sól. Erum líka svo heppin að eiga yndislega ömmu- og afastelpu, Sölku Dögg sem Sandra okkar á með unnusta sínum, Ingimundi Elí.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Samvera með fjölskyldu og nánustu vinum er mitt aðaláhugamál og ég legg mikið upp úr því að rækta þau sambönd vel og vandlega. Eftir að hafa búið í Danmörku til skamms tíma áttaði ég mig á því hvað fjöllin, hafið og sviptingar í veðri eru stór hluti af minni vellíðan, en útivera og ferðalög eru áhugamál sem við Steini deilum. Við hjónin grípum svo hvert tækifæri sem gefst til að yfirgefa borgina og njóta sveitasælunnar í fjölskyldubústað sem við erum svo heppin að hafa aðgang að.

Hver er þín helsta fyrirmynd?

Ég á mér enga eina sérstaka fyrirmynd en ég kýs að sjá, velja og tileinka mér góða og nytsamlega eiginleika og venjur þeirra sem verða á vegi mínum. Með hækkandi aldri er ég að læra að skilja ósiði annarra eftir hjá þeim sjálfum því ég hef nóg með mína eigin.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Ég starfaði hjá Malbikstöðinni í tæp sjö ár áður en ég tók þriggja ára ævintýra- og námspásu í Danmörku. Það er búið að vera krefjandi að koma til baka þar sem fyrirtækið óx á miklum hraða á stuttum tíma og því af mörgu að taka. Það er svo sannarlega gefandi að takast á við krefjandi verkefni þegar samheldnin og viljinn til að vanda sig og gera vel ríkir í sterkum og stöðugum hópi starfsfólks. Þannig er það hjá okkur.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Áskoranir í lífi og starfi eru alltaf til staðar en mín helsta áskorun er líklega að stýra orkunni meðvitað, þannig að hún nýtist sem best, svo ég njóti þess í ræmur að vera mamma, eiginkona, amma, dóttir, vinkona og mannauðsleiðtogi. Flesta daga er áskorunin ferlega skemmtileg en stundum getur þetta verið ögn flókið.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Klárlega mun ég njóta mikils tíma með Steina mínum uppi í sumarbústað að dytta að hinu og þessu með hrúgu af góðu fólki og barnabörnum í kringum okkur. Hvað atvinnu varðar þá er ég svo innilega sátt við mína stöðu í dag og kýs að einblína á að sinna því starfi vel á meðan ég hef eitthvað að gefa og krafta minna er óskað. Eitt eða tuttugu ár fram í tímann – þetta verður bara að koma í ljós.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Alltaf mun ég velja mér starf sem snýst um að efla og styðja fólk og teymi til að gera eitthvað frábært. Það er svo magnað að verða vitni að getu og aðlögunarhæfni einstaklinga til að verða betri í dag en í gær, í víðasta skilningi. Það er alveg sama hvort við erumað tala um stóra hráa tækjamenn eða ungmenni að taka sín fyrstu skref á söngsviðinu. Góður árangur byrjar alltaf á því að hlusta og skilja hvaðan fólk er að koma og þannig átta sig á þörfum einstaklingsins til að ná árangri í átt að sínum eigin og sameiginlegum markmiðum teymisins.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Ég á eftir að rannsaka París betur en það sem ég hef séð af henni heillar mig meira en margar aðrar borgir.