Þetta er meðal niðurstaðna ársreiknings LSR fyrir árið 2021, en stjórn sjóðsins undirritaði hann á fundi sínum í gær. Þar kemur jafnframt fram að hrein raunávöxtun A-deildar LSR var 10,4 prósent, B-deildar 9,3 prósent og hjá Séreign var hrein raunávöxtun Leiðar I 10,3 prósent, Leiðar II 5,8 prósent og Leiðar III, sem er innlánsleið, -0,1 prósent.

76 milljarðar í lífeyrisgreiðslur

Lífeyrisþegar LSR voru að meðaltali 23.148 í hverjum mánuði á síðasta ári og námu heildarlífeyrisgreiðslur sjóðsins rúmlega 76 milljörðum. Lífeyrisgreiðslurnar jukust um nærri 7,4 milljarða milli ára. Sjóðfélagar sem greiddu mánaðarlega til LSR voru að jafnaði ríflega 30 þúsund á síðasta ári.

LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins, en hreinar eignir hans eru rétt um 20 prósent af heildareignum allra íslenskra lífeyrissjóða og nema tæpum 42 prósentum af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Þá urðu þau tímamót á árinu að A-deild sjóðsins rauf 1.000 milljarða múrinn, en í árslok nam hrein eign deildarinnar um 1.024 milljörðum króna.

Hækkanir á hlutabréfamörkuðum

Góða ávöxtun ársins 2021 má að miklu leyti þakka góðu gengi á hlutabréfamörkuðum bæði hér heima og erlendis. Mest var ávöxtunin á innlendum hlutabréfamarkaði, en erlend hlutabréf skiluðu einnig góðri ávöxtun á árinu. Lágt vaxtastig þýddi hins vegar að ávöxtun á skuldabréfamörkuðum var nokkuð minni. Í árslok var hlutfall erlendra eigna tæplega 43 prósent af eignasafni LSR.

Hlutfall skuldabréfa og innlána fór lækkandi í eignasafni sjóðsins á árinu, úr ríflega 52 prósent í rúm 45 prósent, meðal annars vegna þeirra miklu hækkana sem áttu sér stað á hlutabréfamörkuðum og endurspeglaðist í hækkun á virði hlutabréfa í safni LSR.

Hlutfall skuldabréfa tryggðum með veði í fasteignum fór lækkandi í eignasafninu en hlutfall grænna og félagslegra skuldabréfa fór vaxandi og námu fjárfestingar sjóðsins í slíkum skuldabréfum 5,9 milljörðum í níu mismunandi skuldabréfaútgáfum.

Tryggingafræðileg staða LSR var í ársreikningnum reiknuð í samræmi við breyttar forsendur reiknigrunns um lífslíkur sem fjármála- og efnahagsráðuneytið staðfesti við lok síðasta árs. Forsendurnar miðast við spá um hækkandi lífslíkur til framtíðar, sem leiðir til aukinna lífeyrisskuldbindinga umfram fyrri forsendur. Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR miðað við þessar forsendur er -2,7 prósent, en hefði verið 5,6 prósent með óbreyttum forsendum.