Um 9,5 prósent ungmenna á aldrinum 16 til 24 ára eru hvorki í námi né vinnu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun. Margir af þeim eru einstaklingar af erlendu bergi brotnu og leiða rannsóknir í ljós að staða ungmenna af erlendum uppruna sem eru utan vinnumarkaðar og skóla hefur versnað á seinustu árum.

Rannsóknin sem umræðir er rannsókn Öddu Guðrúnar Gylfadóttur, rannsakanda hjá Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, á stöðu óvirkra ungmenna. Í rannsókninni kemur fram að ýmsir þættir hafi áhrif á virkni ungmenna, meðal annars kyn, aldur, fjölskyldugerð, menntunarstig og félagsleg og efnahagsleg staða foreldra.

Þá er hlutfall óvirkra ungmenna hærra meðal barna einstæðra foreldra og í því samhengi á fjárhagsstaða foreldra þátt að máli. Ungir karlar er líklegri en konur til að vera óvirkir.

Jafnframt kemur fram að ungar konur af erlendum uppruna sem eru hvorki í námi né vinnu hafi búið við margþættar hindranir í íslensku samfélagi.

„Kon­urn­ar upp­lifa fjölþætta út­skúf­un úr ís­lensku sam­fé­lagi á grund­velli upp­runa síns bæði frá ís­lensk­um al­menn­ingi og stofn­un­um sam­fé­lags­ins. Á sama tíma er gerð krafa um ríka sjálfs­bjarg­ar­viðleitni í kerfi sem er flókið, óaðgengi­legt og óhag­stætt út­lend­ing­um. Kerfið og stofn­an­ir sam­fé­lags­ins eru sömu­leiðis ósveigj­an­leg­ar og virðast ekki end­ur­spegla lýðfræðilega sam­setn­ingu sam­fé­lags­ins. Kon­urn­ar búa við kerf­is­bund­inn ójöfnuð sem kem­ur í veg fyr­ir að þær geti tekið full­an þátt í ís­lensku at­vinnu­lífi og sam­fé­lagi,“ seg­ir meðal ann­ars í umræðukafla skýrslu um rann­sókn­ina.