1. Um 92 prósent svarenda sem tóku afstöðu voru líkleg til að kaupa jólagjafir í íslenskum verslunum, um 56 prósent í íslenskum vefverslunum, um 17 prósent í verslunum erlendis og um 27 prósent í erlendum vefverslunum. Þetta kemur fram í könnun Prósent sem fram fór dagana 30. október til 7. nóvember 2021. Fjöldi svarenda var 965 og svarhlutfallið 48 prósent. Gögn voru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið var tillit til kyns, aldurs og búsetu.

Konur voru líklegri en karlar til að ætla að kaupa jólagjafir í íslenskum vefverslunum og 44 ára og yngri voru líklegri til að ætla að versla í íslenskum vefverslunum en 55 ára og eldri. Auk þess voru 54 ára og yngri líklegri til að ætla að versla í erlendum vefverslunum en þau sem eldri eru.

Heimild: Prósent

Um 32 prósent þátttakenda byrjuðu að kaupa jólagjafir áður en nóvember hófst. Um 37 prósent þátttakenda gerðu ráð fyrir að hefja jólagjafakaupin í nóvember og um 29 prósent í desember, þar af um 1 prósent sem ætlar að versla á Þorláksmessu. Tæpt hálft prósent þátttakenda nefndu annan tíma og um 1 prósent þátttakenda ætluðu ekki að kaupa neinar jólagjafir. Hærra hlutfall kvenna en karla voru tímalega í þessu og höfðu hafið jólagjafakaupin fyrir nóvembermánuð, eða 38 prósent á móti 27 prósent karla. Fleiri karlar en konur gera ráð fyrir að byrja jólagjafakaupin í desember eða 38 prósent karla á móti 20 prósent kvenna. Lægra hlutfall þátttakenda í aldurshópnum 18 til 24 ára höfðu byrjað jólagjafakaupin fyrir nóvembermánuð en þátttakendur í öðrum aldurshópum.

Heimild: Prósent