Alls var 90 prósenta aukning á milli ára í póst­sendingum í desem­ber­mánuði hjá Póstinum, það sem af er mánuði, og 120 prósenta aukning í nóvember. Brynjar Smári Rúnars­son, upp­lýsinga­full­trúi Póstsins segir að sam­dráttur hafi verið í er­lendum sendingum. Þau taki á móti nokkrum tonnum í einu og að um daginn hafi þau afgreitt fimm tonn frá Bandaríkjunum samdægurs. Venjulagi taki slík afgreiðsla þó lengri tíma.

Hann segir að það sé búið að vera mjög mikið álag frá byrjun nóvember.

„Það kom mikill hvellur í kringum Sing­les day og svo aftur í kringum Black Fri­day og Cyber Monday.“

Hann segir að magnið sé jafnt yfir allan tímann en að það komi sprengjur í kringum þessa daga. Hann segir að það sé á­huga­vert að í fyrra hafi Svartur föstu­dagur verið síðasta föstu­daginn í mánuðinum og því hafi meiri­hluti þeirra sendinga sem megi rekja til dagsins fallið á desem­ber­mánuð í fyrra.

„Núna er það ekki þannig en desember er samt 90 prósenta aukning þrátt fyrir að stærstu verslunar­dagarnir séu í nóvember í ár. Það var því mjög mikið að fara í gegnum net­verslun í ár,“ segir Brynjar Smári.

Brynjar Smári segir að þeim hafi tekist að koma pökkunum á rétta staði fyrir jól.

Með nánast hreint gólf núna

Spurður hvernig hafi gengið að takast á við þetta segir hann að það hafi gengið ó­trú­lega vel. Það geti flestir starfsmenn farið sáttir í jóla­frí þótt margir séu ef­laust þreyttir.

„Við erum komin með nánast hreint gólf eins og er kallað hjá okkur. Sem betur fer tókst okkur að leysa þetta mjög vel og erum á „trakki“ með allt eins og staðan er núna,“ segir Brynjar Smári.

Það minnkaði kannski að­eins undan­farna daga?

„Já, en það var tölu­verður póstur í síðustu viku líka. Það minnkaði að­eins í lok vikunnar en mikill póstur eigin­lega frá því í byrjun nóvember,“ segir Brynjar Smári.

Hann segir að hann hafi ekki upp­lýsingar um jóla­kort en að það hafi þróast í sömu átt og annar bréf­póstur og hafi minnkað undan­farin ár.

„Við höfum ekki séð ein­hvern rykk í því en það kemur auð­vitað alltaf eitt­hvað magn tveimur vikum fyrir jól. En al­mennt hafa þau verið að falla í sam­ræmi við bréfin,“ segir Brynjar Smári.

Þannig flestir eiga von á því að pakkarnir komist til skila fyrir morgun­daginn?

„Já, við erum á góðum stað með allt og það hefur allt gengið mjög vel að koma pökkum til skila,“ segir Brynjar Smári að lokum.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð að erlendar sendingar, sem eru nokkur tonn, væru afgreiddar samdægurs. Það á ekki alltaf við, en átti við í einu tilfelli. Leiðrétt klukkan 14:56, 23.12.2020.