Mikil tækifæri eru enn til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum. Virði framleiðslunnar gæti aukist um 85 prósent frá árinu 2019 til 2030 í 615 milljarða. Þyngst vega aukin umsvif í fiskeldi sem gæti skilað nærri 200 milljörðum í útflutningstekjur eftir um áratug.

Þetta kemur fram í skýrslunni Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verður kynnt síðar í dag, miðvikudag.

Heimild: Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi

Forsendur þess að spáin gangi eftir er að vel sé hlúð að styrkleikum íslensks sjávarútvegs, svo sem nýtingarstefnu fiskstofna, fiskveiðistjórnunarkerfinu og öflugu samspili hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja og tækni- og þekkingarfyrirtækja. Styrkja þarf rannsóknarinnviði, efla innlendar rannsóknir og auka samstarf innlendra rannsóknarsjóða, segja skýrsluhöfundar.

Fiskeldi hefur stóreflst á Íslandi undanfarin ár, einkum eldi á laxi í sjókvíum. Árið 2008 voru framleidd um 4.900 tonn af eldisfiski en árið 2020 var framleiðslan 40.600 tonn. Fiskeldi í sjókvíum hefur byggst upp á tveimur landsvæðum á Íslandi, Vestfjörðum og Austurlandi. Í flestum öðrum landshlutum er fiskeldi í sjó ekki leyft.

Fiskeldi er fjárfrekt

Fiskeldi er fjárfrek atvinnugrein og framleiðsluferlið er langt en tvö til þrjú ár líða þar til lax sem alinn er í sjókvíum hefur náð markaðsstærð. Íslensku eldin eru að mestu í eigu norskra fyrirtækja sem eru reynd á þessu sviði.

Á verðlagi ársins 2019 var fjárfest í eldi fyrir um 600 milljónir árin 2008 og 2009, næstu þrjú ár fyrir um 1,1 til 1,4 milljarða króna á ári, í hönd fór tímabil þar sem fjárfestingin fór stigvaxandi þar til hún náði hámarki í 6,8 milljörðum króna árið 2017. Fjárfestingar áranna 2018 og 2019 voru nokkru minni eða 3,5 milljarðar og 2,7 milljarðar króna.

Arðgreiðslur sjávarútvegs álíka og hjá öðrum fyrirtækjum

Athygli vekur að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja sem hlutfall af hagnaði voru á árunum 2010 til 2013 lægri hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en fyrirtækjum almennt en munurinn var lítill á árunum 2014 til 2018. Á árunum 2010 til 2013 voru arðgreiðslur í viðskiptahagkerfinu að jafnaði 47 prósent en 15 prósent í sjávarútvegi. Dæmið snerist við á síðustu árum og voru arðgreiðslur í sjávarútvegi að meðaltali 37 prósent 2014 til 2018 en arðgreiðslur í viðskiptahagkerfinu voru 34 prósent á sama tíma, samkvæmt skýrslunni.

Í viðskiptahagkerfinu er horft fram hjá lyfjaframleiðslu, fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum auk sorphirðu. Arðgreiðslur þeirra eru ekki teknar með í reikninginn.

„Litlum fyrirtækjum gengur yfirleitt erfiðlega og eru ýmist rekin með tapi eða litlum hagnaði.“

Afkoma í sjávarútvegi hefur farið dvínandi síðasta áratug en hún er misjöfn eftir fyrirtækjum. „Litlum fyrirtækjum gengur yfirleitt erfiðlega og eru ýmist rekin með tapi eða litlum hagnaði. Þó eru einnig dæmi um lítil fyrirtæki sem skila góðum hagnaði. Rekstur stærri fyrirtækja gengur betur, sérstaklega þeim sem eru með milljarð eða meira í tekjur,“ segir í skýrslunni.

Þótt sum sjávarútvegsfyrirtæki teljist til stórra fyrirtækja á íslenskan mælikvarða eru þau lítil í samanburði við mörg sjávarútvegsfyrirtæki í nágrannalöndunum, benda skýrsluhöfundar á. n

Afkoman batni ekki mikið án kerfisbreytinga

Fram kemur í skýrslunni að ekki megi gera ráð fyrir að afkoman batni mikið í sjávarútvegi á næstu árum án þess að gerðar verði grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða. Lyfta yrði kvótaþakinu en nú mega útgerðir og tengdir aðilar einungis fara með tólf prósent af heildarverðmæti aflahlutdeila. Sú breyting gæti aukið hagnað í sjávarútvegi um níu prósent og aukið ábata samfélagsins um fjögur til sjö prósent auk þess að losna myndi um fjármagn sem bundið sé í atvinnugreininni og gæti nýst annars staðar í hagkerfinu með arðbærari hætti. Skýrsluhöfundar benda á að slíkt gæti leitt til mun meiri samþjöppunar á sjávarútvegi sem gengi þvert á byggðasjónarmið fiskveiðikerfisins. Óvíst sé því hvort pólitískur vilji væri til að ráðast í þær breytingar.

Íslenskur sjávarútvegur sá eini sem greiðir með sér

Sjávarútvegur á Íslandi er sá eini innan OECD-ríkjanna sem greiðir meira til hins opinbera en greinin fær greitt úr opinberum sjóðum. Í helstu samkeppnislöndum Íslands er sjávarútvegur ríkisstyrktur. Veiðigjaldið veikir samkeppnisstöðu íslensku fyrirtækjanna en endurspeglar jafnframt efnahagslegan styrk greinarinnar, að því er segir í skýrslunni Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.

Heimild: Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi

„Sú staðreynd að íslenskur sjávarútvegur geti þrátt fyrir þetta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er til merkis um styrkleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins í alþjóðlegu samhengi,“ segir í skýrslunni.

Eins benda skýrsluhöfundar á að sjávarútvegurinn hafi sýnt styrk sinni í þeim efnahagsþrengingum sem riðið hafi yfir íslenskt efnahagslíf á þessari öld. Það hafi komið sterklega í ljós í bankakreppunni eftir 2008 og síðan að nýju eftir efnahagsþrengingarnar sem leiddu af heimsfaraldri COVID-19. „Sjávarútvegur hefur með þessu sýnt að hann getur jafnað sveiflur í hagkerfinu og aukið með því viðnámsþrótt þess,“ segja þeir.