Um 84 prósent allra íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í apríl voru undir ásettu verði en um 10 prósent seldust á hærra verði en á þær var sett. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Er þetta nokkur breyting frá því sem var fyrir ári síðan þegar annars vegar 69 prósent seldust undir ásettu verði og hins vegar 17 prósent seldust á yfirverði.

Áfram virðist mikil eftirspurn eftir minni íbúðum. Það sem af er ári hafa 24 prósent viðskipta með eins eða tveggja herbergja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verið yfir ásettu verði, samanborið við aðeins 7 prósent viðskipta með íbúðir sem eru fimm herbergja eða stærri. Þess má geta að minni íbúðir hafa ríflega tvöfaldast í verði á undanförnum áratug á meðan verð stærri eigna hefur hækkað um rúm 70 prósent.

Samkvæmt nýrri könnun Íbúðalánasjóðs og rannsóknafyrirtækisins Zenter telja 88 prósent leigjenda líklegt að þeir verði áfram á leigumarkaði eftir hálft ár en aðeins um 9 prósent telja að þeir verði komnir af leigumarkaði. 16 prósent þeirra sem búa enn í foreldrahúsum telja líklegt að þeir færi sig yfir á leigumarkað á næstu 6 mánuðum en í hópi húsnæðiseigenda er hlutfallið einungis 2 prósent.

Frá því að Seðlabanki Íslands tilkynnti vaxtalækkun um 0,5 prósentustig í lok síðasta mánaðar hafa flestir þeir sem bjóða upp á óverðtryggð fasteignalán lækkað vaxtakjör sín, allt frá 0,15 til 0,7 prósentustigum.

Viðskipti með íbúðir á Vestfjörðum hafi tekið vel við sér að undanförnu eftir að hafa verið í dálítilli lægð og var árleg velta fasteigna hærri þar en á sambærilegum svæðum. Talsverð hækkun hefur einnig orðið á söluverði eigna á Vestfjörðum.