Síminn hagnaðist um 760 milljónir króna á fjórða fjórðungi síðasta árs, eftir því sem fram kemur í uppgjöri félagsins sem birt var eftir lokun markaða síðdegis í dag. Hagnaður fjarskiptafélagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var ríflega 2,7 milljarðar króna á fjórðungnum og jókst um nærri þrjátíu prósent frá sama tímabili árið áður.

Tekjur Símans námu 7.896 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2019 borið saman við 7.544 milljónir króna á sama tíma árið áður. Nam tekjuvöxturinn þannig 4,7 prósentum.

Hagnaður félagsins var 760 milljónir króna, eins og áður sagði, en til samanburðar tapaði það 2.436 milljónum króna á fjórða fjórðungi ársins 2018. Tapið skýrist af því að viðskiptavild upp á 2.990 milljónir króna var afskrifuð en án afskriftarinnar hefði hagnaður tímabilsins verið 554 milljónir króna.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að rekstur Símasamstæðunnar hafi verið traustur í fyrra og eflst eftir því sem liðið hafi á árið.

„Sala á helstu þjónustuþáttum okkar var vel ásættanleg og munar miklu að Síminn höfðar á ný til yngri kynslóða. Því til viðbótar jókst eftirspurn eftir upplýsingatæknivörum Sensa á síðasta fjórðungnum. Slíkan vöxt má þó ekki framreikna til næstu ársfjórðunga, þar sem sala, innleiðing og ráðgjöf í upplýsingatækni getur verið sveiflukennd,“ nefnir Orri.

Í heild komi samstæðan sterk til leiks árið 2020. Þrátt fyrir kólnandi efnahag landsins spái stjórnendur bættri EBITDA-framlegð milli ára og sterkara fjárflæði.

Spáin fyrir yfirstandandi ár gerir ráð fyrir að EBITDA Símans – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði á bilinu 10,5 til 10,9 milljarðar króna en til samanburðar var hún ríflega 10,5 milljarðar króna í fyrra. Auk þess er áætlað að fjárfestingar í ár verði á bilinu 5,7 til 6,0 milljarðar króna.