Samstarfið felst í því að taka ljósmyndir af jöklum og bera þær saman við sögulegar myndir. JÖRFÍ hefur einnig nýtt styrk frá 66° Norður, að upphæð 1,6 milljón króna til að mæla afkomu Tindfjallajökuls og Eyjafjallajökuls og hefur safnað myndefni til að nota í fræðslu og kynningu um jökla - og loftslagsbreytingar.

Mælingarnar munu gera vísindamönnum kleift að bera saman afkomu þessara jökla við aðra íslenska jökla. Andri Gunnarsson, formaður JÖRFÍ, segir það mjög ánægjulegt að 66° Norður vilji halda áfram samstarfi við Jöklarannsóknafélagið eftir mjög farsælt samstarf á líðandi ári.

„Markmið samstarfsins í ár verður einnig að virkja félagsfólk til að heimsækja valda staði og endurtaka ljósmyndirnar. Þannig má með mjög áhrifaríkum hætti fá tilfinningu fyrir þessum breytingum, ekki með línuritum og tölum, heldur með sterkri sjónrænni upplifun,“ segir Andri.

Bjarney Harðardóttir, eigandi 66°Norður, segist vona að næstu kynslóðir geti ferðast um og upplifað jökla á sama hátt og við gerum nú. „Markmiðið okkar fyrir jöklana er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif loftslagshlýnunar og að gefa þeim tækifæri að styðja beint við starf JÖRFÍ. Það er afar ánægjulegt að sjá þetta vaxa ár frá ári og finna fyrir auknum áhuga neytenda að styðja við þessar umhverfisvænu áherslur,“ segir Bjarney.