Vefverslunarmiðstöðinni Mynto var hleypt af stokkunum á morgun, fimmtudag, í smáforriti sem hægt er að sækja í App Store og Google Play. Vefsíðan mynto.is fer í loftið á næstu vikum. „Þar er hægt að versla af 40 verslunum, sumar hverjar þekktar eins Epal, Lindex og Nespresso. Í boði eru yfir 100 þúsund vörunúmer sem gerir okkur að stærstu vefverslun á Íslandi,“ segir Heba Fjalarsdótir markaðsstjóri Mynto.

Að hennar sögn munu vefverslanir Mynto njóta góðs af því að vera tengdar saman og geti saman boðið upp á mikið vöruúrval. Það muni draga að viðskiptvini, rétt eins og fjöldi fólks geri sér ferð í Kringluna, Smáralind og Laugaveg.

Sýnileiki eykst til muna

„Fyrir vikið mun sýnileiki verslana aukast til muna. Það eru margar vefverslanir til sem neytendur hugsa oft ekki til í verslunarleiðangri eða þekkja jafnvel ekki,“ segir Heba.

Verslanir þurfa að reka eigin vefverslun til að tengjast Mynto. Eins og sakir standa býður Mynto eingöngu tengingar við vefverslunarkerfin Shopify og WooCommerce. „Það eru vinsælustu kerfin. Það eru fleiri verslanir sem vilja ganga til liðs við okkur þegar að við höfum bætt við tengimöguleikum við fleiri kerfi. Þegar kerfin tengjast speglast allar vörur, verð og birtist til sölu á okkar vef. Verslanirnar þurfa áfram að sinna hefðbundnum verslunarrekstri á netinu eins og birgðahaldi, póstsendingum og myndatökum,“ segir hún.

Ekki erlendar fyrirmyndir

Heba segir að Mynto eigi sér ekki erlendar fyrirmyndir. „Það væri þá helst Amazon eða Asos.“

Hún segir að neytendur verði alltaf varir við hvaða fyrirtæki er verslað. Einnig er hægt að ganga inn í hverja vefverslun fyrir sig, ef svo megi að orði komast.

Reynsluboltar í stjórn

Í stjórn Mynto sitja Finnur Oddsson, nýráðinn forstjóri Haga; Svafa Grönfeldt, sem starfar við nýsköpunarsetur MIT-háskólans í Boston; Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri gæðamála hjá Alvogen og Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdarstjóri bílaleigunnar Geysis.

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, situr í stjórn Mynto.
Mynd/Origo

„Við stofnendur fyrirtækisins þekkjum vel til þeirra sem sitja í stjórninni og erum mjög þakklát fyrir þann stuðning sem þau hafa veitt okkur. Við fundum yfirleitt einu sinni í mánuði með þeim og förum yfir hvað hefur verið gert og hvað sé framundan. Hópurinn hefur meðal annars hjálpað okkur mikið við að þróa viðskiptaáætlunina og við vöruþróun,“ segir Heba.

Að mestu í eigu fimm stofenda

Mynto er að mestu leyti í eigu fimm stofnenda fyrirtækisins. Teymið samanstendur af tveimur forriturum, sölustjóra, markaðsstjóra auk framkvæmdastjóra.

Heba segir að svartsýnar spár geri ráð fyrir að fyrirtækið verði farið að standa undir sér eftir tæplega tvö ár.

Svafa Grönfeldt, sem starfar við nýsköpunarsetur MIT-háskólans í Boston, situr í stjórn Mynto.

Stefna á að auka hlutafé

„Við stefnum á að safna auknu hlutafé seinna í sumar. Áætlanir líta vel út en það er erfitt að áætla hvernig sala fer af stað,“ segir hún.

Hún segir að Mynto taki þóknun fyrir hverja sölu en rukki ekki mánaðargjald. „Við erum með fasta þóknun af sölu fyrir allar verslanir. Við bjóðum verslunum að prufa Mynto frítt í einn mánuði. Við berum því sama hag og verslanirnar af því að vörurnar þeirra seljist.“

Betri neytendavernd á netinu

Heba segir að neytendavernd í netverslun sé meiri en þegar keypt sé í hefðbundnum verslunum. „Þegar keypt er á netinu eiga viðskiptavinir rétt á endurgreiðslu ef vörunni er skilað innan 14 daga. Sama neytendavernd er ekki til staðar í hefðbundnum verslunum því þar er miðað við endurgreiðslu í formi inneignarnótu. Það er því minni áhætta að versla á netinu en margir átta sig á.“

Að hennar sögn er Mynto opna á góðum tíma. Netverslun hafi færst mjög í aukana eftir Covid-19. „Aukningin hjá sumum verslana hjá okkur nemur hundruðum prósenta að undanförnu,“ segir Heba.