Fyrstu hlutdeildarlánunum var úthlutað af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í dag. Lánin eru hluti af stuðningi stjórnvalda vegna lífskjarasamninga og er þeim ætlað að auðvelda ungum og tekjulágum að kaupa sína fyrstu eign.

Alls bárust 192 umsóknir á fyrsta umsóknartímabilinu sem lauk þann 20. nóvember síðastliðinn. 129 um­sókn­ir bárust um lán­in á höfuðborg­ar­svæðinu og 62 um­sókn­ir á lands­byggðinni.

Alls voru 72 umsóknir samþykktar, 47 á höfuðborgarsvæðinu og 25 á landsbyggðinni.

Þetta þýðir að aðeins 37,5 prósent af umsóknum voru samþykktar í heildina og rúmlega 36 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Unnur Sif Hjartardóttir, sérfræðingur á lánasviði HMS, segir í samtali við Fréttablaðið að fjöldi íbúða sem var úthlutað í dag sé í takt við það sem stofnunin miði við á ársgrundvelli.

„Við lögðum upp með að vera að samþykkja um 400-500 íbúðir á ári. Við ætlum að úthluta tvisvar á þessu ári þannig þetta er í takt við það sem verður í þeim sex úthlutunum sem verða á næsta ári."

Hún segir að í einhverjum af þeim 192 umsóknum sem bárust hafi vantað fullnægjandi upplýsingar eða gögn og því var ekki hægt að klára vinnslu þeirra.

Íbúðirnar sem samþykktar voru á höfuðborgarsvæðinu eru m.a. á Gufunesinu, Garðabæ, Mosfellsbæ, í Síðumúlanum í Reykjavík og víðar. Unnur gat ekki veitt upplýsingar hvort eitthvað af íbúðunum hafi verið í miðbænum.

Mikil eftirspurn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að það sé greinileg þörf fyrir hlutdeildarlánunum.

„Það er alveg greinilegt að það er mikil eftirspurn eftir hlutdeildarlánum, enda hjálpa þau ungu fólki og tekjulágu að koma sér af leigumarkaðnum í eigið húsnæði. Ég er ótrúlega ánægður með að hafa komið þessari stóru kerfisbreytingu í gegn og hlutdeildarlánin eru þegar byrjuð að breyta markaðnum til góðs fyrir ungt fólk og tekjulágar fjölskyldur."

Ráðherra segist búast við fjölgun á næsta umsóknartímabili sem líkur þann 13. desember næstkomandi.

„Við höfum séð mikinn áhuga frá öllum hliðum, frá kaupendum, verktökum og fasteignasölum og við sjáum það á þeim miklu og góðu viðbrögðum að það er mikil eftirspurn til staðar. Þetta fyrsta umsóknartímabil var stutt en þrátt fyrir það erum við að sjá mikinn áhuga. Ég á von á því að umsóknum í næstu úthlutun fjölgi, enda fjölgar sífellt íbúðum sem er í boði fyrir kaupendur."