Félagið 365 miðlar hefur selt allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna og keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum fyrir hátt í 1,8 milljarða króna. Gengið var frá viðskiptunum í morgun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

365 miðlar voru þriðji stærsti hluthafi Sýnar með tæplega 11 prósenta hlut en félagið eignaðist hlutinn í kjölfar kaupa Sýnar, þá Fjarskipta, á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tímaritsins Glamour.

Félagið seldi nánar tiltekið 32.380 þúsund hluti í Sýn á genginu 61,5 krónur á hlut fyrir um 1.991 milljón króna. Þá keypti félagið 36.900 þúsund hluti í Högum - ríflega þriggja prósenta hlut - á genginu 47,5 krónur á hlut. Nam kaupverðið þannig 1.753 milljónum króna.

Það voru Fossar markaðir sem höfðu umsjón með viðskiptunum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. 

Félög tengd Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla, áttu fyrir yfir tveggja prósenta hlut í Högum, einkum í gegnum fjármögnun hjá Kviku, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Greint var frá því í síðasta mánuði að 365 miðlar, eigandi Torgs ehf., sem er útgefandi Fréttablaðsins, hefði fengið Kviku banka til þess að kanna áhuga mögulegra kaupenda á Torgi, vegna skilyrða sem Sam­keppnis­eftir­litið setti við sölu á eignum 365 til Sýnar. 

Sam­keppnis­eftir­litið setti þau skil­yrði að innan til­tekins tíma myndi 365 þurfa að selja hlut sinn í Torgi eða Sýn.