323 fyrirtækjum í Noregi verður gert að endurgreiða ríkisaðstoð sem þau hafa hlotið vegna heimsfaraldursins.

Norsk stjórnvöld hafa opinberlega birt lista yfir öll þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér aðstoðina og eru 76 þegar búin að endurgreiða styrkinn.

Haft er eftir norska ríkisskattstjóranum í norska miðlinum E24 að sum fyrirtækin hafi boðist til að endurgreiða aðstoðina af eigin frumkvæði. Annað hafi komið til í kjölfar athugunar skattayfirvalda eða ábendinga frá fjölmiðlum. Viðskiptablaðið greindi frá málinu fyrst íslenskra miðla.

Stjórnvöld í Noregi hafa styrkt þarlend fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins með beinum hætti, til að mynda með því að greiða fastan rekstrarkostnað.

Að sögn Hans Christian Holte ríkisskattstjóra eru dæmi eru um að stöndug fyrirtæki sem hafi lokað til að ráðast í endurbætur hafi sótt um aðstoð og nýstofnuð fyrirtæki sem gáfu upp fastan kostnað á síðasta ári sem ekki var fyrir hendi.

Upprunalega gerðu stjórnvöld ráð fyrir því að allt að 100 þúsund fyrirtæki myndu sækjast eftir aðstoðinni. Fram að þessu hafa þó einungis um 28 þúsund sótt um.

Holte segir ljóst að umsóknafjöldinn sé undir langt frá fyrstu áætlun stjórnvalda en tekur fram að stærstu fyrirtækin eigi enn eftir að koma inn í leiðina og að erfitt sé að meta þörfina í svona óvissuástandi. Ekki sé heldur búið að opna fyrir umsóknir vegna aprílmánaðar.