Heildarmagn af lönduðum makríl á yfirstandandi fiskveiðiári skreið yfir 30 þúsund tonn á þriðjudag, að því er kemur fram í gögnum Fiskistofu.

Skip í flotanum tínast nú eitt af öðru á makrílvertíðina, en af þeim 30 þúsund tonnum sem hefur verið landað, hefur meira en helmingur skilað sér á land síðastliðnar tvær vikur, þrátt fyrir að aðstæður hafi verið slæmar á miðum framan af mánuði. Í síðustu viku voru skip á makrílslóð nokkuð dreifð um miðin og sáust ýmist í kringum Vestmannaeyjar eða suðaustur af landinu.

Á þriðjudag mátti hins vegar telja fjölmörg skip á sama blettinum suðaustur af landinu. Meðal annars voru skip frá vestmannaeysku útgerðunum Vinnslustöðinni, Ísfélaginu og Hugin á sama svæði, auk skipa frá Eskju, Brimi og Skinney-Þinganesi.

Þriðjungi alls makríls sem hefur komið að landi hefur verið landað í Vestmannaeyjum. Tæpum sex þúsund tonnum hafði verið landað á Neskaupstað þar sem Síldarvinnslan hefur aðsetur og loks tæpum fimm þúsund tonnum á Vopnafirði, þar sem Brim starfrækir uppsjávarvinnslu.

Aflahæsta skipið á makrílvertíðinni sem stendur er Huginn VE-55, sem er gerður út af samnefndri útgerð, með ríflega 2.400 tonn. Kap VE-4 á vegum Vinnslustöðvarinnar fylgir fast á eftir með um 2.100 tonn komin að landi og þriðja sætið vermir Venus NS-150 með um 1.700 tonnum lönduðum.

Alls er heimilt að veiða um 166 þúsund tonn af makríl á yfirstandandi vertíð.