Bestu íslensku vörumerkin, ný markaðsverðalun, hafa tilnefnt 30 vörumerki sem þau bestu á liðnu ári í fjórum flokkum, skipt eftir starfsmannafjölda. Verðlaunin eru á vegum vörumerkjastofunnar brandr sem stofnuð var af Fiðriki Larsen, dósent við Háskóla Íslands. Verðlaunin verða afhent hinn 25. febrúar.

Viðurkenninguna hljóta þau vörumerki sem skara framúr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju. Vel heppnuð staðfærsla er lykillinn að árangursríkum rekstri og arðsemi vörumerkja, segir í tilkynningu.

Fyrirtækjamarkaður (B2B). Starfsfólk vörumerkis 50 eða fleiri: Controlant, Marel, Meniga, Nox Medical, Origo.

Fyrirtækjamarkaður (B2B). Starfsfólk vörumerkis 49 eða færri: Akademias, Alfreð, Brandenburg, Múrbúðin, Payday.

Einstaklingsmarkaður (B2C). Starfsfólk vörumerkis 50 eða fleiri: 66 norður, Byko, Elko, Heimkaup, Ísey skyr, Krónan, Lyfja, Nettó, Nova, Síminn.

Einstaklingsmarkaður (B2C). Starfsfólk vörumerkis 49 eða færri: Arna, Blush, Brauð & co, Brikk, Eldum rétt, Feel Iceland, Good Good, Húrra Reykjavík, Hlemmur Mathöll, Omnom.

„Bestu íslensku vörumerkin eru ný markaðsverðlaun, sem verða veitt í upphafi hvers árs á grundvelli vörumerkjastefnu viðkomandi fyrirtækja, en hún er meðal annars mæld með því að skoða viðskiptalíkön og staðfærslu,“ segir í tilkynningu.

Til að safna tilnefningum fyrir Bestu íslensku vörumerkin nú leitaði brandr annars vegar til valnefndar, sem að þessu sinni er skipuð 54 sérfræðingum úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu, og hins vegar til almennings.

Valnefndin setti í kjölfarið fram lista yfir þau tilnefndu vörumerki sem hún mat framúrskarandi og fimmtudaginn 25. febrúar fá bestu vörumerkin viðurkenningu í sérstakri athöfn í beinni útsendingu á netinu. Þátttaka í verkefninu er öllum hlutaðeigandi að kostnaðarlausu.