Tuttugu og níu starfsmönnum Borgunar hefur verið sagt upp.

Starfsmennirnir eru hluti af hópuppsögn sem tilkynnt var um í dag hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgun.

Alls hafa verið ráðnir nærri sextíu nýir starfsmenn til Borgunar á síðustu mánuðum í tengslum við yfirstandandi umbreytingu Borgunar yfir í þjónustumiðað tæknifyrirtæki. Á sama tíma hefur verið dregið úr umsvifum á öðrum sviðum fyrirtækisins til að snúa við rekstrartapi. Breytingarnar hafi því miður kallað á fækkun starfsfólks á þeim sviðum.

Í júlí sagði fyrirtækið upp tíu starfsmönnum þar á meðal úr efsta stjórnendalagi fyrirtækisins. Þá var þrettán starfsmönnum sagt upp í september síðastliðnum.

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay gekk frá kaupum á tæplega 96 prósenta eignarhlut í Borgun fyrir samtals 27 milljónir evra, jafnvirði 4,4 milljarða króna í mars. Borgun var áður í meirihlutaeigu Íslandsbanka.