Engar eignir fundust í búi E20 hf, áður Eignarhaldsfélagið Arev hf., og því fæst ekkert upp í rúmlega 284 milljónir króna sem lýst var í búið. Skiptum lauk þann 30. ágúst síðastliðinn en félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 29. maí á þessu ári. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Aðaleigandi félagsins var Jón Scheving Thorsteinsson, eigandi Arev verðbréfafyrirtækis hf.

Leiða má líkum að því að gjaldþrotið tengist kaupum íslenskra aðila á tískuversluninni Duchamp í miðborg Lundúna árið 2015. Markaðurinn fjallaði um málið í janúar 2018.

Um var að ræða kaup fagfjárfestasjóðsins Arev NII á umræddri verslun af félaginu Földungi í eigu slitabús Glitnis í mars árið 2015. Kaupverðið var um tvær milljónir punda. Rúmlega 15 mánuðum síðar var Duchamp lýst gjaldþrota. Þeir sem fjárfestu í sjóðnum, Arev NII, voru meðal annars ellefu íslenskir lífeyrissjóðir og var tap þeirra yfir hálfur milljarður króna. Spruttu af þessu deilur og var Jón Scheving sakaður um að hafa ekki staðið skil á hlutafjárframlagi upp á 66 milljónir krónasem fyrirtæki í hans eigu hafði gefið loforð fyrir.

Nánar er hægt að lesa um þá deilu hér að neðan en í svari Jóns Scheving við fréttinni á sínum tíma kom fram að Eignarhaldsfélagið Arev, sem nú er gjaldþrota, ábyrgðist kaup sjóðsins á Duchamp.