Alls hefur 27 starfs­mönnum hótelsins The Reykja­vík Edition verið sagt upp. Greint er frá þessu á vef mbl.is en þar kemur fram að á­stæða upp­sagnanna er kórónu­veirufar­aldurinn og færri bókanir en búist var við.

Fram­kvæmda­stjóri hótelsins, Denis Jung, stað­festir þetta við mbl.is, og segir að vonir standi til þess að ráða þau sem sagt var upp aftur þegar bókanir verða fleiri.

Hótelið opnaði form­lega í októ­ber á síðasta ári en hótelið er rekið í sam­starfi við al­þjóð­legu hótel­keðjuna Marriot og er fimm stjörnu hótel. Það er stað­sett við hliðina á Hörpu. Í anddyri Edition er meðal annars kokteilabarinn Tölt og á hótelinu er auk þess að finna veitingastaðinn Tides.