Hluthafar í Skeljungi sem áttu samtals 2,56 prósenta hlut í fyrirtækinu tóku yfirtökutilboði Strengs. Í kjölfarið fer Strengur og tengdir hluthafar með 40,56 prósenta hlut í Skeljungi eða 41,6 prósenta hlut að teknu tilliti til eigin hluta. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 8,3 krónur á hlut en gengið er nú 9,11 krónur á hlut.

Fjárfestingafélagið Strengur er í eigu Sigurðar Bollasonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur; Ingibjargar Pálmadóttur og fasteignasalanna Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar. Hluthafar Strengs voru áður hluthafar í Skeljungi. Þeir gerðu með sér samkomulag um að leggja hluti sína í Streng.

„Strengur hefur í tilboðsyfirliti, yfirlýsingum út á markaðinn og á fundum ráðgjafa Strengs með öðrum hluthöfum lýst fyrirætlunum sínum með ítarlegum hætti. Með tilboðinu fengu þeir hluthafar sem ekki deildu þeirri sýn tækifæri til að selja bréf sín með álagi miðað við síðasta viðskiptadag fyrir gerð tilboðsins. Strengur þakkar öðrum hluthöfum það traust og þá trú sem þeir hafa á þeirri vegferð sem kynnt hefur verið. Strengur mun í krafti atkvæða sinna fylgja eftir þeirri sýn, öllum hluthöfum Skeljungs til hagsbóta" segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Strengs og Skeljungs. Hann er eiginmaður Ingibjargar, hluthafa í Strengi.