Alls hafa selst 23 íbúðir í nýju fjöleignarhúsi sem nú er að rísa á Hlíðarendasvæðinu á þeim 10 dögum sem liðnir eru frá því sala hófst. Það er um þriðjungur þeirra 69 íbúða sem komnar eru í sölu á vegum félagsins Hlíðarfótur.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hlíðarfæti. Þar segir að alls verði byggðar 191 íbúð í fjöleignahúsinu og af þeim verði ríflega 120 íbúðir minni en 90 fermetrar. Einungis fjórar íbúðir eru stærri en 150 fermetra og er ein þeirra þegar seld.

,,Áður en við fórum af stað í þetta verkefni fyrir rúmu ári síðan þá gerðum við þarfagreiningu á markaðnum og lásum hann þannig að mikið af stórum og dýrum eignum á svæðum í kringum okkur væru í þróun eða farin af stað í byggingu. Við mátum það því þannig að meiri eftirspurn yrði eftir hagkvæmum, minni íbúðum á þessu svæði. Sú hefur verið raunin því við finnum fyrir mjög miklum áhuga. Það er greinilega skortur á þessari tegund af íbúðum í kringum miðbæinn,” segir Helen Neely, verkefnisstjóri í stýriteymi 102 Reykjavík.

,,Við áttum ekki von á svona mikilli sölu á svo stuttum tíma sérstaklega í ljósi mikils umtals um tregðu á sölu á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Sýningaríbúð er ekki tilbúin, sem gerir þessar góðu viðtökur enn merkilegri, en hún verður klár í október. Við settum 69 íbúðir á sölu fyrir um 10 dögum. Helmingur þeirra eru 2ja herbergja íbúðir og alls er um að ræða 50 hagkvæmar íbúðir af minni gerðinni,” segir Helen Neely, verkefnisstjóri í stýriteymi 102 Reykjavík.