Rúmlega 1.800 fyrirtæki höfðu sótt um sérstakt greiðsluhlé vegna farsóttarinnar, hjá kerfislega mikilvægum bönkum um miðjan júní, en fjárhæð lána í greiðsluhléi nam þá um 18 prósentum af heildarútlánum bankanna til fyrirtækja. Stærstur hluti þessara lána er til fyrirtækja í ferðaþjónustu og í fasteignaviðskiptum. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í gær.

Einnig hefur verið töluverð aukning í útlánum kerfislega mikilvægra banka sem skráð eru í frystingu, en slík lán teljast í vanefndum. Jókst hlutfall vanefnda á útlánum bankanna til fyrirtækja úr fimm prósentum í febrúar, í átta prósent í lok maí.

Verðvísitala atvinnuhúsnæðis lækkaði um tólf prósent að raunvirði á milli ára á fyrsta fjórðungi. „Þar sem áhrif farsóttarinnar komu ekki fram af fullum þunga fyrr en í lok fjórðungsins og náðu hámarki eftir að honum lauk, er líklegt að frekari verðlækkunar sé að vænta í mælingu annars fjórðungs. Því gæti reynt á viðnámsþrótt bæði þeirra sem eiga og þeirra sem fjármagna atvinnuhúsnæði.“