Byggðamál

170 milljónir farið í styrk­veitingar vegna „Brot­hættar byggðar“

Frá því að verk­efninu Brot­hættar byggðir var komið á fót hafa verið veittir rúm­lega tvö hundruð styrkir sam­tals að fjár­hæð um 170 milljónir króna. Stjórnar­for­maður Byggða­stofnunar telur reynsluna af verk­efninu góða.

Grímsey er meðal þeirra byggðarlaga sem tekið hafa þátt í verkefninu Brothættar byggðir. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGHVATUR

Alls hafa um 170 milljónir króna verið veittar í styrki vegna verkefnisins Brothættar byggðir. Verkefnið, sem er á forræði Byggðastofnunar, hófst árið 2012 sem tilraunaverkefni á Raufarhöfn. Markmiðið var að leita lausna á vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.

Síðan hefur fleiri byggðarlögum verið bætt við og nú eru þau átta talsins sem taka þátt, en verkefninu er lokið á tveimur til viðbótar. Byggðastofnun hefur nú birt yfirlit yfir alla veitta styrki frá upphafi verkefnisins.

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir að aðferðafræðin byggi á því að horft sé til þeirra áherslna sem heimamenn vilji sjá. „Þetta snýst um að virkja heimamenn sem best. Þannig nýtist fjármagnið vel og það næst ákveðin samstaða um áherslur til að bæta búsetuskilyrði á þessum stöðum þar sem byggð hefur átt undir högg að sækja,“ segir Illugi.

Reynslan af verkefninu góð

Hann telur reynsluna af verkefninu vera góða. „Það sem einkennir þetta er að hér er um að ræða tímabundin verkefni en ekki viðvarandi úrræði á hverjum stað. Það þarf auðvitað að leggja mat á aðstæður hverju sinni og það er ekki hægt að gera allt. Alltaf þegar opinberum fjármunum er ráðstafað þarf að sýna aðgát. Við stefnumótun og ráðstöfun fjármagns horfum við á búsetu með heildstæðum hætti.“

Þau byggðarlög sem taka þátt í verkefninu fá tiltekna fjárhæð árlega til að styrkja frumkvæðisverkefni íbúa. Sérstök verkefnisstjórn á hverjum stað úthlutar styrkjunum en í henni situr fulltrúi Byggðastofnunar, auk fulltrúa viðkomandi sveitarfélags, landshlutasamtaka, atvinnuþróunarfélags og íbúa.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnið styðji við framtíðarsýn og meginmarkmið í viðkomandi byggðarlagi. Í byggðaáætlun 2018-2024 sem samþykkt var á Alþingi í júní er lagt til að 700 milljónum verði á þessu tímabili varið til verkefna í brothættum byggðum.

Karen Nótt Halldórsdóttir, ritari hverfisráðs Grímseyjar og skólastjóri Grímseyjarskóla, situr fyrir hönd íbúa í verkefnisstjórn. „Okkar reynsla af þessu er mjög góð og þetta hefur mikla þýðingu. Það eru íbúar sem forgangsraða því sem þeir vilja að gerist. Þetta snýst aðallega um að efla og byggja upp þjónustu, bæði fyrir íbúa og ferðamenn,“ segir Karen.

Hún segir þetta líka gríðarlega mikilvægt fyrir byggðastefnu í landinu. „Markmiðið er að bæta búsetuskilyrði og lífsgæði á allan hátt.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Hækka verð­mat sitt á Skeljungi lítil­lega

Erlent

Minni eignir í stýringu BlackRock

Auglýsing

Nýjast

Hall­dór Brynjar í eig­enda­hóp LOGOS

Hlutabréf í Icelandair hækka um 3,4 prósent

Verðbólga ekki lægri í Bretlandi í tvö ár

Vofa góðra stjórnarhátta

Bjóða allt að 20 milljarða í Icelandair Hotels

Eaton Vance dregur saman seglin á Íslandi

Auglýsing