Heildarskuldbinding Valitors vegna greiðslumiðlunar fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu nemur um 1,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá greiðslumiðlunarfélaginu.

Þar af nemur engin einstök skuldbinding hærri upphæð en 0,7 milljörðum króna, að sögn félagsins. Heildarskuldbindingin nær til hótela, ferðaskrifstofa, flugfélaga, bílaleiga og annarra ferðaþjónustufyrirtækja.

„Í ljósi COVID-19 hefur verið nokkur umræða bæði hér á landi og erlendis um skuldbindingar fjármálafyrirtækja vegna ferðaþjónustu. Vegna fjölmargra fyrirspurna hefur Valitor ákveðið að birta áætlaða heildarskuldbindingu félagsins vegna greiðslumiðlunar fyrir um 430 fyrirtæki í ferðaþjónustu bæði hér á landi og erlendis,“ segir í tilkynningu félagsins.

Valitor, sem er í eigu Arion banka, segist sem fyrr leggja áherslu á að stýra skuldbindingum sínum þannig að þær séu innan þeirra marka sem félagið telur ásættanleg.